141. löggjafarþing — 106. fundur,  18. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[14:29]
Horfa

Frsm. meiri hluta stjórnsk.- og eftirln. (Magnús Orri Schram) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Svo ég ítreki það, virðulegi forseti og hv. þingmaður, var ég ekki að tala um að ég ætlaði að bera litla virðingu fyrir þeim þjóðarvilja sem mundi birtast. Ég var bara að segja að þeir sérfræðingar sem komu fyrir nefndina bentu á þann möguleika að ef um stjórnarskrá Íslands væri breið sátt í þessu húsi og farið yrði í sjálfstæða þjóðaratkvæðagreiðslu sem ekki væri tengd alþingiskosningum eða bæjarstjórnarkosningum gæti sú hætta verið fyrir hendi að þjóðin mundi ekki mæta á kjörstað. Þá væri lítill hluti þjóðarinnar með mikil völd og þess vegna væri skynsamlegra að hafa að minnsta kosti einhvern þröskuld til að ná fram þeim vilja þjóðarinnar sem þyrfti að birtast. Þar var róið fyrir þessa vík eins og við reyndum að gera í þessum tillögum.

Hvað varðar hvort breytingarákvæðið er undir vil ég svara því svoleiðis að sá aðili sem flytur breytingu á stjórnarskipunarlögum tekur það fram á skjalinu hvora leiðina hann vill fara. Hér er verið að opna á þann möguleika að menn freisti þess að ná víðtækri sátt í þessum þingsal um breytingar á stjórnarskrá, en menn geta farið áfram (Forseti hringir.) með breytingar á stjórnarskrá eftir gamla ákvæðinu og treyst á einfaldan meiri hluta í þessum þingsal. (Gripið fram í: … kosningar?)