141. löggjafarþing — 106. fundur,  18. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[17:52]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Við hefðum betur tekið þá umræðu sem Norðmenn tóku á 8. áratugnum um fullveldisframsal þegar menn sáu fram á hvað fjölþjóðasamstarf gæti boðið upp á. Þetta er málefni sem er mikilvægt að við tökum góða umræðu um.

Varðandi kosningar um einstök mál eins og t.d. Icesave, um þjóðréttarlegar skuldbindingar eða mál fjárhagslegs eðlis, hefði ég kosið að það væri undir hattinum sem fólk gæti beðið um sjálft. Ég hef stundum tekið sem dæmi nefskattinn í Bretlandi sem felldi íhaldsstjórnina á sínum tíma og var stórpólitískt mál og eðlilegt að þjóðin hefði getað krafist þjóðaratkvæðagreiðslu um slíka hluti. Það á því eflaust við um okkur öll að það er ýmislegt sem við vildum færa til annars og betri vegar.

Þarna minni ég aftur á að málskotsrétturinn er þarna eftir sem áður. Það er ekki búið að taka neitt af okkur hvað það snertir. Þótt ég hefði viljað hafa þetta rýmra er þetta engu að síður mikið skref fram á við sem þarna er verið að stíga.

Síðan nefnir hv. þingmaður réttilega að sum mál eru þess eðlis að ekki liggur í augum uppi hvernig á tæknilega að ná því markmiði sem menn kunna að sammælast um eða greiða atkvæði um, eins og persónukjörið til dæmis eða jöfnun kosningarréttar eða annað slíkt. Síðan eru það málin sem eru skýr og hafa fengið mjög mikla umræðu, ekki bara núna, ekki bara í síðustu viku eða síðasta mánuði, í fyrra eða hittiðfyrra, heldur í áratugi, eins og auðlindaákvæðið. Það er útrætt mál (Forseti hringir.) og þjóðin var spurð um það og niðurstaðan var skýr. Þess vegna eigum við að sjálfsögðu að samþykkja slíkt.