144. löggjafarþing — 106. fundur,  13. maí 2015.

störf þingsins.

[16:14]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Þegar ríkisstjórnin tók við völdum sagði hún: Ríkisstjórnin mun leitast við að virkja samtakamátt þjóðarinnar og vinna gegn því sundurlyndi og tortryggni sem einkennt hefur íslensk stjórnmál og umræðu um nokkurt skeið.

Nú er svo komið að sú ríkisstjórn sem hér situr er réttnefnd ríkisstjórn ófriðar og sundrungar og við höfum aldrei séð annað eins. Ríkisstjórn ófriðar og sundrungar er það sem hún skal sitja uppi með að heita. Ég vil í tilefni af því og í skugga þeirrar ríkisstjórnar óska starfsmönnum Fiskistofu til hamingju, starfsfólki sem hefur búið við atlögu síns eigin ráðherra. Þau fagna því, þau segja: Margir hafa verið í óvissu með störf sín, enda með fjölskyldu og börn. Þungu fargi hefur verið létt af því fólki. Þetta er staðan í ríkisstofnun á Íslandi, í ríkisstjórn sem lagði af stað með það að vinna gegn sundurlyndi og tortryggni. Þessi sama ríkisstjórn býr yfir menntamálaráðherra sem er löngum stundum erlendis en er á sama tíma að leggja í þvílíka atlögu gegn framhaldsskólunum úti um allt land. Stendur til að sameina Fjölbrautaskólann á Norðurlandi vestra og Menntaskólann á Ísafirði? Stendur til að sameina Menntaskólann á Akureyri og Menntaskólann á Tröllaskaga og Framhaldsskólann á Húsavík? Það hefur heyrst. En svarar menntamálaráðherra Alþingi um þetta? Nei, vegna þess að hann er menntamálaráðherra í ríkisstjórn ófriðar og sundrungar. Það er ekki nóg með að hér sé vinnumarkaðurinn logandi heldur gengur hver ráðherrann á fætur öðrum á undan með atlögur að eigin stofnunum og eigin málaflokkum. Svei þessari ríkisstjórn.