149. löggjafarþing — 106. fundur,  20. maí 2019.

tækifæri garðyrkjunnar.

[17:07]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Herra forseti. Það er búið að vera ótrúlega gaman að hlusta á alla ræðumenn hér í dag. Mér finnst einkenna ræðurnar bjartsýni, sóknarhugur fyrir íslenskan landbúnað og í þessu tilviki grænmetið og það hafa komið margar góðar og þarfar ábendingar, m.a. hjá hv. þingmanni sem talaði hér síðast varðandi flutningskerfið hér á landi. Ef við viljum að allt landið sé tengt þá þurfum við líka að gæta að samgöngum fyrir vörurnar okkar sem, þegar kemur að grænmetinu, eru flestar framleiddar á suðvesturhorninu og sunnan lands. Við þurfum að huga að því.

Í heimsókn okkar í Viðreisn til Bændasamtakanna, Félags garðyrkjubænda og líka í öðrum störfum mínum hef ég skynjað mjög mikinn ótta varðandi upprunamerkingar og hann er skiljanlegur. Það þarf að gera átak varðandi upprunamerkingar. Nú getum við ekki lengur látið hjá líða að merkja vörurnar og kalla eftir auknu eftirliti, þess vegna viðurlögum, ef menn misnota aðstæður sínar og koma annars ágætu innfluttu grænmeti í íslenskar umbúðir. Ég vil að neytandinn hafi val en ekki að honum sé talin trú um það að eitthvað sé íslenskt grænmeti þegar það er erlent í umbúðunum. Við neytendur, hvort sem við erum íslenskir eða komum að utan, krefjumst þess að verslanir og framleiðendur, milliliðir líka, skili réttum skilaboðum til neytenda þannig að þeir geti milliliðalaust valið um það hvort þeir velji íslenskt gott grænmeti eða erlent gott grænmeti. Þeirra á að vera valið.

Þess vegna viljum við í Viðreisn styðja við bændur í þeirri kröfu sinni að efla upprunamerkingar en ekki síður eigum við að setja okkur það markmið, og ég er þeirrar sannfæringar sem og fólk í Viðreisn, að afnema sem flestar hindranir, allar hindranir, til að efla íslenska framleiðslu. Það hefur sýnt sig að hefur gefist vel. (Forseti hringir.) Fólkið okkar í landbúnaði er stútfullt af hugmyndum til að auka og efla íslenska nýsköpun innan lands (Forseti hringir.) og þannig munum við styrkja áfram landbúnaðinn í heild sinni og neytendamarkaðurinn líka.