149. löggjafarþing — 106. fundur,  20. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[23:58]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er mat mitt að tvö megináhersluatriði Evrópusambandsins þessi misserin og árin séu annars vegar þessi sameiginlegi fjármálamarkaður Evrópu, þar með talið evran og að reyna að bæta þar úr eftir hremmingarnar sem menn urðu fyrir í fjármálakrísunni, og hins vegar orkumálin. Evrópusambandið og reyndar ESA, verður því miður að segjast, hefur gengið mjög hart fram í málum sem virðast nú kannski léttvæg í samanburði eins og að fá að flytja hingað ófrosið hrátt kjöt, mál sem var ekki einu sinni innan EES-samningsins. Í því máli sem skiptir að maður myndi halda mjög takmörkuðu máli fyrir Evrópusambandið í heild hafa íslensk stjórnvöld engu að síður verið þvinguð til að gera það sem við töldum og höfðum rök fyrir að væri ekki í samræmi við EES-samninginn.

Getur þetta ekki verið vísbending um hvers sé að vænta í svona stóru hagsmunamáli. eins og ég segi, öðru af megináhersluatriðum Evrópusambandsins?