149. löggjafarþing — 106. fundur,  20. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[23:59]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni. Ég held að hann hafi einmitt komið þarna inn á mjög mikilvægan þátt sem við þurfum að horfa á í þessari umræðu, þ.e. hráakjötsmálið. Við innleiðum matvælalöggjöf Evrópusambandsins 2009 og við höfðum ekki áhuga á því að hingað yrði flutt inn hrátt kjöt og settum á svokallaða frystiskyldu, að allt kjöt yrði fryst í 30 daga, minnir mig, áður en það yrði flutt inn til landsins. Við töldum að við værum búnir að tryggja okkur með þessu móti. Þetta er lagalegur fyrirvari sem menn töldu að væri hið besta mál. Annað kemur síðan á daginn. Tíu árum síðar þurfum við að flytja inn hrátt kjöt til landsins sem verður núna á haustmánuðum. Það mál í samanburði við málið sem hér er til umræðu er náttúrlega bara smámál eins og hv. þingmaður nefndi. Þess vegna er það alveg ljóst í mínum huga að þegar Evrópusambandið lagði svona ríka áherslu, með hagsmunaaðila hér á Íslandi, að brjóta þessa múra varðandi frystiskylduna þá mun það svo sannarlega gera allt til þess að þetta mál fari hér í gegn, sem hefur miklu meiri þýðingu fyrir Evrópu í heild sinni og Evrópusambandið.