149. löggjafarþing — 106. fundur,  21. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[00:01]
Horfa

Jón Þór Þorvaldsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Hann gerði að umtalsefni grein eftir Kristin Sigurjónsson um orkupakka þrjú og sæstreng, sem birtist í Viljanum. Það vill svo skemmtilega til að ég hafði kynnt mér þessa grein. Þar er lagt upp með að það sé mikill munur á orkuframleiðslu í Evrópu og svo á Íslandi. Markmiðssetningar Evrópusambandsins eru alveg skýrar og þær miða alltaf meir og meir að aukinni nýtingu endurnýjanlegrar orku á borð við þá sem við höfum hér á Íslandi á kostnað raforku sem framleidd er með jarðefnaeldsneyti, kjarnorku eða kolum, eða annarrar óhreinnar orku.

Maður hlýtur að spyrja sig: Hvaðan kemur sú orka? Hvaðan á hún að koma? Hún er ekki til staðar í því magni sem Evrópusambandið og ríki Evrópusambandsins þurfa. Það er ekkert ólíklegt að þeir horfi til landa eins og Íslands. Og ég er hjartanlega sammála hv. þingmanni í því að við erum Evrópusambandinu mjög mikilvæg þjóð og afar hæpið að Evrópusambandið mundi vilja leggja upp með að setja samstarf við okkur upp í loft á þeirri forsendu að við séum ekki að fara eftir samningnum um Evrópska efnahagssvæðið.

En mig langar til að spyrja hv. þingmann, þar sem hann hefur umtalsvert meiri þingreynslu en ég, um það sem ég hélt í barnslegri einfeldni minni: Að þegar hagsmunaaðilar væru kallaðir fyrir nefndir á borð við hv. utanríkismálanefnd væri það gert til að fá fram sjónarmið sem væru svo notuð til að byggja undir ákvörðun og afstöðu nefndarinnar.

Nú vill svo til að um 70% umsagnaraðila sem mættu fyrir hv. utanríkismálanefnd í téðu máli voru á móti innleiðingu orkupakkans eins og hann er lagður fyrir. Hver er ástæða þess að nefndin tekur slíka afstöðu í þessu máli þegar meiri hlutinn sem kallaður er fyrir hefur þessa afstöðu?