149. löggjafarþing — 106. fundur,  21. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[02:25]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég hef einmitt sjálfur spurt mig þeirrar spurningar sem hv. þingmaður beindi til mín, og ég þakka honum fyrir, hvað það sé sem menn hræðast. Franklin Delano Roosevelt sagði einu sinni: Við höfum ekkert að óttast nema óttann sjálfan.

Alla vega á minni ævi, eða svo lengi sem ég hef fylgst með stjórnmálum, höfum við staðið í alls konar útistöðum við aðrar þjóðir. Við áttum í stríði við Breta út af landhelgi, þrisvar sinnum. Við erum búnir að eiga svona upp og niður samband við Bandaríkjamenn, t.d. út af hvalveiðum. Það var allt uppspretta pólitískrar óvissu á sínum tíma.

En öll hafa þessi mál leyst með einhverjum hætti. Og t.d. núna, eftir þessi þrjú þorskastríð sem við háðum við Breta, eru Bretar líklega okkar helstu bandamenn í dag á mjög mörgum sviðum. Það sem er liðið er einfaldlega liðið af því að við stóðum á okkar rétti og við höfðum betur. Alþjóðadómstólar voru líka með okkur í þessu máli og greiddu atkvæði okkur í vil. Eins er með lyktir Icesave-málsins. Þar fengum við jákvæðan dóm eftir mjög hatramma baráttu inni í þessum sal.

Ég get ekki hugsað þá hugsun til enda ef sú barátta í þessum sal hefði tapast. Hvar værum við stödd þá? Og að sumu leyti líður manni svipað núna. Ef þessi umræða í þessum sal tapast, hvað verður þá? Og hvaða afleiðingar mun það hafa sem ekki er hægt að taka til baka?