149. löggjafarþing — 106. fundur,  21. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[05:32]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Jóni Þór Þorvaldssyni kærlega fyrir þessa ræðu. Hann dvaldi nokkuð við Noreg og því langaði mig til að vekja athygli á því enn einu sinni að í Noregi eru enn þá, eftir því sem ég best veit, málaferli í gangi vegna upptöku þriðja orkupakkans þar og líka vegna þess að þeir átta fyrirvarar sem gerðir voru hafa í sjálfu sér orðið að vindi og reyk. Ég hef hugsað það nokkuð í þessari umræðu, alveg frá byrjun, hvort það væri ekki ráð fyrir okkur Íslendinga að sjá hvernig upptöku þriðja orkupakkans reiðir af í Noregi, þ.e. hvort þau málaferli sem nú standa endi hugsanlega með því að hann verði dæmdur, fyrir stjórnlagadómstóli í Noregi, ótækur vegna þess að hann standist ekki stjórnarskrá Noregs. Það hefði kannski verið ástæða fyrir menn hér að hugleiða það í fullri alvöru að bíða ögn eftir þessu.

Við erum búin að tala um í þessari umræðu, í fyrri umr., svo í síðustu viku og núna, þann asa sem er á þessu máli. Spurningin er: Eru menn kannski að hugsa sér það að koma þessu máli í skjól áður en stjórnlagadómstóll í Noregi fellir sinn dóm? Eru menn kannski hræddir um það hér, og nú er ég að spyrja hv. þingmann þessara tveggja spurninga, að einmitt þessi niðurstaða verði í Noregi, þ.e. að stjórnlagadómstóll komist að þeirri niðurstöðu að upptaka þriðja orkupakkans þar standist ekki stjórnarskrá?