150. löggjafarþing — 106. fundur,  20. maí 2020.

grásleppuveiði og strandveiðar.

[15:33]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrirspurnina. Það er í henni ákveðinn misskilningur. 25% er ekkert nýtt. Það er 15% heimild í núgildandi regluverki til yfirfærslu milli ára. Það er ekki færsla sem gagnast stórútgerðinni sérstaklega. (Gripið fram í.) Þetta kemur minni útgerðum í aflamarkskerfi best, þeim sem byrja venjulega veiðar á vorin og eru að veiða mest fyrir ferskfiskmarkaði og hafa sótt inn á þá markaði og lenda í vandræðum vegna erfiðleika á markaði. Þetta gagnast þeim best en ekki endilega þessu „hræðilega fyrirbæri“, stórútgerðinni, eins og sumir vilja meina.

Fiskveiðistjórn á grásleppu er eins og hún er. Við erum að stjórna þessu með sóknarmarki, það eru dagar og það er ákveðin ráðgjöf. Já, þetta kemur vissulega illa við þá sem voru annaðhvort tiltölulega nýbyrjaðir eða ekki byrjaðir. Verst fóru svæði við Breiðafjörðinn út úr þessu vegna þess að þeim var meinað að byrja að veiða fyrr en eftir 20. maí. Aðrir á grásleppuleyfum máttu byrja að veiða 10. mars og það var enginn sem ákvað það nema þeir sjálfir hvenær þeir byrjuðu. Við erum vissulega að teygja aðeins á ráðgjöfinni en það er til þess að mæta þeim aðilum sem höfðu ekki neina kosti fyrr en eftir 20. maí.

Varðandi strandveiðarnar og yfirfærslu er það miklu flóknara mál en svo að færa milli ára með einfaldri lagabreytingu. Þá verðum við einfaldlega að færa alla löggjöfina um 5,3% byggðapottana í einhvern allt annan búning en er í dag. Það er viðameira verkefni en svo að það gerist bara á nokkrum dögum að færa þarna á milli. Meðan engin breyting verður á fyrirkomulagi byggðapottana og aflamarkskerfisins, við erum með 5,3% af öllum veiðiheimildum í pottinum og þeim er öllum úthlutað upp á hvern einasta ugga, er svigrúm ráðherrans eða stjórnvalda hverju sinni til þess að mæta áföllum ekkert. Þingið er búið að eyða því öllu.