150. löggjafarþing — 106. fundur,  20. maí 2020.

grásleppuveiði og strandveiðar.

[15:35]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Forseti. Ráðherrann getur leitað liðsinnis Alþingis til að fá lagaheimild til að gera það. Nú eru tveir mánuðir síðan ráðherra kom með tillögur sem gagnast þeim sem eru í kvótakerfinu, þ.e. 27. mars, að yfirfæra kvóta á milli ára. Já, það er rétt að það gagnast líka smærri aðilum en þeir sem eru í strandveiðikerfinu og þeir sem eru á grásleppuveiðum fá þetta ekki. Ég spyr: Ætlar ráðherra ekkert að gera fyrir þá, fyrir utan þennan eina aðila sem gat ekki byrjað að veiða? Hvað með alla hina sem voru ekki byrjaðir að veiða? Það var ekki vel haldið utan um þetta. Ég skal segja hvað ég les út úr þessu. Það sem ég les út úr þessu er að þeir sem ætla að vera fyrir utan kvótakerfið lenda bara svolítið illa í því. Svo á að koma nýtt strandveiðifrumvarp. Ætlar ráðherra í alvörunni ekkert að gera fyrir þá? Ætlar hann bara að bíða þangað til nýtt strandveiðifrumvarp kemur? Á ekkert að gera núna? Ætlar hann bara að bíða þangað til að hann kvótasetur grásleppu? Á ekkert að gera neitt núna fyrir þau byggðarlög sem verða fyrir mjög þungu höggi í kjölfar Covid (Forseti hringir.) þegar ekki skila sér aukin verðmæti eða jafnvel minni verðmæti inn í þau byggðarlög? Ráðherra getur gert það núna. Hann getur beðið þingið um það.