150. löggjafarþing — 106. fundur,  20. maí 2020.

ávana- og fíkniefni.

328. mál
[15:49]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Já, alla jafna myndi ég styðja það. Ég hef ekki séð umrætt frumvarp Pírata. Mér þykir líklegra að á því séu einhverjir gallar þannig að ég gæti ekki stutt það, það gæti verið huglægt. (Gripið fram í: Hvar er frelsið?) En ég er bara að benda á tvískinnunginn og mótsagnirnar hjá fólki. Hér var talað um hv. þm. Andrés Inga sem væri tilbúinn til að afglæpavæða þetta allt saman, svo að menn gætu fengið að vera með fíkniefni eins og þeim sýndist, en sami maður getur ekki hugsað sér að áfengi sé selt nema með stórkostlegum takmörkunum. Maður veltir fyrir sér: Bíddu, hvers konar fólk er þetta? Þetta eru einhvern veginn endalausar mótsagnir.

Ég hef alltaf verið þeirrar skoðunar að menn eigi að bera ábyrgð á sjálfum sér og ég ætla ekki að fara að beita fíkla refsingu. Ég hef engan áhuga á því, og hef aldrei haft, að beita fíkla refsingu, þetta er heilbrigðisvandamál.

(Forseti (SJS): Forseti biður hv. þingmann um að vísa til annarra þingmanna með fullu nafni og gæta hófs í orðum þegar hann vísar til afstöðu eða skoðana annarra þingmanna. Hv. þingmaður getur verið þeim algjörlega ósammála en það fer vel á því að fjalla um sjónarmið annarra með hófsamlegum orðum.)

Þingmaður biðst velvirðingar á þessu. En eins og ég segi: Ég get alveg fallist á að afglæpavæða þessa neyslu, eða beita ekki refsingum. Ég hef aldrei litið svo á að refsa eigi mönnum fyrir það sem þeir eiga að bera ábyrgð á sjálfir, á sér og sínu lífi. Það gildir auðvitað annað ef menn eru að dreifa þessum efnum með einhverjum hætti, það er annað mál. En í mínum huga eru hér ótrúlegar mótsagnir og tvískinnungur, ég fer ekki ofan af því, hæstv. forseti.