150. löggjafarþing — 106. fundur,  20. maí 2020.

stimpilgjald.

313. mál
[16:23]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Það er ávallt mikilvægt þegar við tökum skref til að lækka skatta og gjöld. Við í Viðreisn höfum lagt mikla áherslu á að lækka stimpilgjöld á alla, afnema stimpilgjöld og ekki síst á þessum tímum skiptir miklu máli að við hugsum um heildina en ekki eingöngu sérhagsmuni eins og mér finnst birtast í þessu máli.

Við í Viðreisn höfum lagt til sérstaklega að afnema stimpilgjöldin og það myndi koma heimilunum vel og þeim sem standa m.a. í fasteignakaupum. (Gripið fram í.) Þetta er vissulega skref í átt að lækkun gjalda en þetta er forgangsröðun ríkisstjórnarinnar varðandi almenna niðurfellingu gjalda og mér finnst miður að ekki skuli vera tekin stærri og almennari skref í þágu almannahagsmuna í stað ákveðinna sérhagsmuna.

Þess vegna mun ég ekki greiða atkvæði með þessu máli.