151. löggjafarþing — 106. fundur,  3. júní 2021.

samþætting þjónustu í þágu farsældar barna .

354. mál
[15:42]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Herra forseti. Þetta er hið ágætasta mál sem við ræðum hér og kollegar mínir í velferðarnefnd, sem ég sit í sem áheyrnarfulltrúi, hafa farið býsna vel yfir sviðið. Ég er ein af þeim sem er á áliti minni hluta velferðarnefndar, ég er samþykk því sem áheyrnarfulltrúi í velferðarnefnd. Eins og fram hefur komið, hjá þeim fulltrúum minni hlutans sem þegar hafa rætt málið, er ég sammála því að þær grundvallarbreytingar sem verið er að leggja upp með í þeim þremur frumvörpum sem hér eru til umfjöllunar eru mjög jákvæðar. Það er líka jákvætt hversu mikið samráð hefur verið haft á kjörtímabilinu, þessi þverfaglega nefnd sem þarna vann, fjöldi fagfólks sem kom að málinu, þingmannanefndin, ráðuneytin og annað slíkt — það var allt til fyrirmyndar enda mikilvægt í jafn umfangsmiklu máli og hér er um að ræða þar sem verið er að fara í víðtækar kerfisbreytingar. Ég ætla því að nota tækifærið hér og árétta það sem komið hefur mjög skýrt fram í máli annarra þingmanna í velferðarnefnd sem eru á minnihlutaálitinu en það eru vonbrigðin yfir því að það víðtæka samráð og samvinna skyldi ekki ná alveg út í gegn.

Ég ætla svo sem ekkert að vera að lengja málið með því að tala líkt og kollegar mínir hér um þær brotalamir sem eru í persónuverndinni, þ.e. í vinnslu persónuupplýsinga. Það hefði þurft að vinna betur, taka meira tillit til mjög afgerandi yfirlýsinga eða umsagna og skoðana og ábendinga Persónuverndar og þá jafnvel til að skapa nauðsynlegt svigrúm af því að við erum auðvitað ekki á lokasprettinum, við stöndum bókstaflega á marklínunni á kjörtímabilinu, og fresta þá gildistökunni. Það liggur ekki fyrir hver skaðinn yrði af slíku en ávinningurinn yrði gríðarlegur. Það er vont ef þetta kemur af fullum þunga í fangið á okkur og tefur þær jákvæðu umbætur, þ.e. ef það kemur í ljós strax í upphafi að það er einhver handvömm þar. En ég treysti því og ég held að ég fari rétt með það að búið sé að kalla málið inn í nefnd á milli 2. og 3. umr. og þá verður gerð önnur tilraun til að fara yfir það.

Mér þótti áhugavert að heyra í Guðmundi Inga Kristinssyni þar sem hann ræddi að hluta til um biðlistana. Biðlistar í velferðarkerfinu skipta máli. Það þarf að huga að umbótum víðar í kerfinu vegna þess að hæstv. barnamálaráðherra hefur svolítið í samtali um þessi mál talað eins og við séum á núllpunkti, að við séum einfaldlega að leggja á borðið mjög jákvæða og góða mynd af því hvernig við viljum haga þessum hlutum. Við þekkjum vel að það getur verið auðveldara að hrinda hlutum í framkvæmd ef við værum með autt blað en það getur orðið miklu flóknara þegar um er að ræða ástand sem verið hefur til vandræða svo árum skiptir. Við þekkjum þetta líka þegar verið er að ræða almannatryggingakerfið okkar, kerfi fyrir öryrkja og aldraða. Flestir eru af vilja gerðir til að koma málum í lag og þeir sjá hvar brotalömin er en það er einhvern veginn erfitt að fara inn í núverandi kerfi og laga til. Það er uppsafnaður vandi í félagslega kerfinu hvað varðar þjónustu við börn og fjölskyldur og hefur verið árum saman.

Við vitum að biðlistar í heilbrigðiskerfinu hafa með réttu verið eitt helsta einkennismerki ríkisstjórnarinnar frá upphafi kjörtímabilsins en þeir liggja víðar þessir biðlistar. Það má kannski segja að hvert sem litið sé blasi við biðlistar í kerfinu okkar. Við erum með yfir 1.000 börn á biðlista eftir sálfræðigreiningu eða meðferð í velferðarkerfinu okkar. Biðlistinn er lengstur eftir þjónustu Þroska- og hegðunarmiðstöðvar, biðlisti til að fá greiningu og meðferð sem er síðan forsenda fyrir stuðningi við börnin í skólakerfinu. Ég get ekki látið hjá líða að nefna hér að við í Viðreisn náðum í gegn frumvarpi sem varð að lögum með stuðningi mikils hluta Alþingis. Sjaldan hefur vilji Alþingis verið jafn skýr í máli sem ekki er stjórnarmál, það er ekkert hægt að segja það öðruvísi. Það mál snerist um að setja sálfræðiþjónustu inn í kerfið þannig að sú mikilvæga þjónusta yrði niðurgreidd af okkar opinberu sjóðum líkt og önnur mikilvæg heilbrigðisþjónusta. Markmiðið var að gera andlega líðan jafngilda líkamlegri líðan í heilbrigðiskerfinu og koma til móts við yngra og efnaminna fólk. En ekki fæst það fjármagn sem þarf í þetta verkefni hjá ríkisstjórninni þó að það gæti þýtt styttri biðlista og tryggt lífsnauðsynlega þjónustu. Gott og vel. Það þarf líklega aðra ríkisstjórn en þessa til að klára það mál.

Biðlistarnir eru víða hvað varðar börn og þjónustu í velferðarkerfinu. Við vitum, og það hefur komið skýrt fram, að börn þurfa að bíða í allt að þrjú ár eftir tíma hjá talmeinafræðingi og aðgerðir ríkisstjórnarinnar undanfarið hafa orðið til þess að biðlistar hafa lengst. Lenging biðlista er afleiðing af aðgerðum ríkisstjórnarinnar og eru dæmi um að allt að 900 börn séu á biðlista eftir tíma. Fleiri hundruð manns bíða lengi eftir því að komast að hjá sjúkraþjálfurum og börn eru þar á meðal. Þeir fullorðnu sem bíða glíma oft við uppsafnaða erfiðleika vegna álags sem m.a. hlýst af fjölskylduaðstæðum þar sem þeir eru að reyna að vinna og búa þar sem hægt er að tryggja þjónustu við börn sem þurfa aðstoð í kerfinu. Formaður Félags sjúkraþjálfara hefur sagt að biðlistar séu einn mesti stressþátturinn í starfi sjúkraþjálfara og álagið sem fylgir því að vita að fleiri hundruð manns bíða. Ef slíkt álag er á sjúkraþjálfurum geta menn ímyndað sér álagið á foreldra barna sem bíða eftir þjónustu. Þess utan eru biðlistarnir sérstaklega langir á landsbyggðunum. Þetta eru sem sagt dæmi um óskiljanlega bið eftir nauðsynlegri og oft fyrirbyggjandi þjónustu sem hefur eðlilega áhrif víða.

Það er svo merkilegt að við vitum að fátt er dýrara fyrir velferðarkerfið en fólk sem er látið bíða eftir þjónustu. Við erum á hverjum degi að missa af tækifærum til að koma til móts við þarfir fólks. Tíminn sem fer í að vera á biðlista, hvort sem er fyrir börn eða fullorðna, kemur ekki aftur og fyrir börnin er um að ræða óafturkræft tap í skólakerfinu, bæði hvað varðar námið og félagslega hlutann. Þetta snýst um glötuð tækifæri. Síðan er áþreifanlega afleiðingin sú að lyfjakostnaður eykst, andlegri líðan hrakar og kostnaðar annars staðar í kerfinu vex í sama hlutfalli. Það tapa allir. Það ætti að vera eitt mesta kappsmál stjórnvalda hverju sinni að tryggja þessa þjónustu og útrýma biðlistum.

Hæstv. barnamálaráðherra hefur með réttu talað um mikilvægi þess að kerfin tali saman. Með þessu máli er gerð góð tilraun til að örva slíkt samtal, svo langt sem það nær. Þrátt fyrir allt er barnamálaráðherra hér í sínu sílói með kerfin sín. Næsta skref, þó fyrr hefði verið, væri að ráðherrann beitti sér fyrir samtali innan ríkisstjórnarinnar. Ef þau kerfi sem þar eru, undir forsvari annarra ráðherra, töluðu saman værum við virkilega að koma til móts við raunverulega hagsmuni skjólstæðinga velferðarkerfisins okkar. Verkefnalistinn er ærinn og þetta er gott og jákvætt skref í rétta átt. Það er hins vegar langt frá því að leysa þann djúpstæða vanda sem er til staðar þegar kemur að þjónustu við fólk. Við erum enn að kljást við að kerfin þvælast fyrir í stað þess að vinna með fólki. Er ástæða til að hafa áhyggjur af því að þó að þetta mál fari í gegn, sem ég veit að það mun gera með dyggum stuðningi, sé bara hálf sagan sögð? Þjónustan þarf að vera til staðar. Biðin eftir henni eykur á vandann og í því liggur hinn raunverulegi kostnaður, hin raunverulega glötuðu tækifæri.

Ég ætla ekki að hafa þetta mikið lengra. Þær ræður sem hér hafa verið haldnar hafa kjarnað viðfangsefnið býsna vel. En mig langar að lokum að nefna rétt barna og þarfir barna sem eiga tvö heimili og hafa ríka stuðningsþörf vegna líkamlegra eða andlegra veikinda eða fötlunar. Réttindi þessara barna líkt og annarra sem hér er verið að hugsa um til þess að fá aðstoð og hjálpartæki á sínum heimaslóðum, verða að vera tryggð. Þetta eru í fæstum tilfellum börn sem hafa beðið um þær aðstæður sem þau búa við og það er samfélagsins okkar að tryggja að þessum börnum og foreldrum þeirra sé gert kleift að sýna jafnræði, að tryggja að börn sem búa á tveimur stöðum eða fleiri fái stuðninginn þar sem þau eru. Þannig erum við að styðja við þessa einstaklinga.