151. löggjafarþing — 106. fundur,  3. júní 2021.

samþætting þjónustu í þágu farsældar barna.

354. mál
[15:59]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V) (andsvar):

Forseti. Já, við skiptumst bara á að vera hissa hér í ræðustól. Þetta svar var mér í svo fersku minni að ég hafði eiginlega skautað yfir þessa setningu í frumvarpinu. Ég ætla, með leyfi forseta, að lesa aftur:

„Það eru á bilinu 1,5–2 milljarðar á ári sem þessi kerfisbreyting mun kosta að frádregnum undirbúningi, gagnagrunni, innleiðingarteymi og öðru. Síðan skiptist það bæði á ríki og sveitarfélög. Það sem lýtur að ríkinu er inni á málefnasviði mínu í þessu frumvarpi. Það sem lýtur að sveitarfélögunum er inni í jöfnunarsjóði og hefur verið bætt þar inn. Þannig að málið er fullkomlega fjármagnað til næstu þriggja ára. Við erum líka með það fjármagn sem við þurfum á yfirstandandi ári …“

Ég held að það liggi fyrir að við þurfum alla vega að skoða þetta. Ef þetta er rétt, sem ég vænti nú eða vona a.m.k., þá þarf að fara í umorðun á þessum texta í frumvarpinu. Þetta getur náttúrlega ekki staðið svona. En ég þakka hv. þingmanni fyrir að reka augun í þetta og vekja máls á þessu af því að það er óheppilegt að ekki fari saman tal og hljóð í þessu mikla og risastóra hagsmunamáli fyrir marga. En ég ætla að leyfa mér að standa hér og segja að ég vona að það sem ég hef lesið hér upp sé það rétta og einhver misskilningur sé í gangi í því sem stendur í frumvarpinu sem við skoðum.