151. löggjafarþing — 106. fundur,  3. júní 2021.

samþætting þjónustu í þágu farsældar barna .

354. mál
[17:35]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Virðulegur forseti. Mig langar að koma inn á þætti sem ég hef aðeins komið inn á í andsvörum hér undir umræðunni og mér þykir of lítið hafa verið komið inn á og ekki neitt í nefndaráliti meiri hluta velferðarnefndar og svo til ekkert í framsögu hæstv. velferðarráðherra, Ásmundar Einars Daðasonar. Miðað við gögn málsins, bara frumvarpið sjálft, þá virðist fjármögnun verkefnisins vera ófrágengin.

Ég ætla að leyfa mér að lesa upp úr frumvarpi til laga um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna, sem er málið sem er hér til umfjöllunar. Þetta er frumvarp hæstv. ráðherra eins og það kemur fyrir. Í 6. lið greinargerðarinnar þar sem farið er yfir mat á áhrifum málsins segir, með leyfi forseta, um mat á fjárhagslegum áhrifum:

„Niðurstaða matsins er því á þá leið að viðbótarútgjöld ríkissjóðs vegna heildarbreytinganna geti numið á bilinu 1.360 til 1.802 millj. kr. árlega fyrstu árin eftir gildistöku laganna auk innleiðingarkostnaðar.“

Síðan er farið yfir það að áætlað sé að þessi kostnaður sé viðvarandi og að innleiðingartímabilinu ljúki árið 2024, það er sá tími sem þessi innleiðingarkostnaður fellur til.

Á næstu síðu segir síðan, með leyfi forseta: „Kostnaður vegna innleiðingar á árinu 2021 er fjármagnaður í fjárlagafrumvarpi ársins 2021.“ Það liggur fyrir og það er óumdeilt. Síðan heldur hér áfram, og það er það merkilega í þessu, þetta er ekki texti frá mér, þetta er bara frumvarp ráðherrans sjálfs sem er mælt fyrir hér 9. desember 2020. Þar segir, með leyfi forseta: „Að öðru leyti hefur ekki verið gert ráð fyrir útgjöldum sem leiða af samþykkt frumvarpsins í fjármálaáætlun.“

Hvað skilaboð er hæstv. velferðarráðherra, Ásmundur Einar Daðason, að senda hérna? Þessi ágætu mál liggja hér fyrir og ég sagði í andsvari fyrr í dag að það gæti ekki nokkur ærlegur maður verið á móti þeim markmiðum sem þar eru sett fram. Það er auðvitað hægt að setja spurningar við það hversu mörg þessara sjónarmiða er hægt að nálgast undir núverandi regluverki, en það er önnur umræða. Það sem ég geri athugasemdir við er að þetta risastóra mál sé í þeim farvegi að lítið virðist hafa verið hugað að fjármögnunarhluta þess, fyrir utan þann kostnað sem fellur til á seinni hluta ársins 2021. Það stendur hér beinlínis í texta ráðherrans, aftur með leyfi forseta: „Að öðru leyti hefur ekki verið gert ráð fyrir útgjöldum sem leiða af samþykkt frumvarpsins í fjármálaáætlun.“ Það hittir þannig á að við samþykktum fjármálaáætlun fyrir árin 2022–2026 á mánudaginn, bara í byrjun vikunnar, þannig að það er ekki eins og það mál sé óklárað. Í fljótu bragði finn ég ekkert um breytingar í þessa veru þar.

Það hefur komið fram hér í umræðunni að málið verður kallað inn til hv. velferðarnefndar á milli 2. og 3. umr. og ég gef mér að þar verði farið í saumana á þessu því að þessi frágangur gagnvart málinu er auðvitað ekki boðlegur.

Það er búið að ræða þetta hér og ég er búinn fara í andsvör við hv. framsögumann nefndarálits meiri hluta velferðarnefndar, Höllu Signýju Kristjánsdóttur, og varaformann nefndarinnar, hv. þm. Ólaf Þór Gunnarsson, og fulltrúi Viðreisnar í nefndinni, Hanna Katrín Friðriksson, kom jafnframt í andsvar við mig. Það er skemmst frá því að segja að fulltrúar meiri hlutans höfðu litlar upplýsingar um það hvernig þessum málum væri háttað. Ég ítreka mikilvægi þess að þetta verði skoðað í velferðarnefnd á milli 2. og 3. umr. Það kom fram áðan í ræðu hv. þm. Ólafs Þórs Gunnarssonar, varaformanns velferðarnefndar, varðandi kostnaðarmatið sem hér liggur fyrir að viðbótarútgjöld ríkissjóðs vegna heildarbreytinganna gætu numið á bilinu 1.360–1.802 millj. kr. Það virtist vera misskilningur hjá hv. þingmanni að þetta væri samtala þess kostnaðar sem fellur á ríki og sveitarfélög. Svo er ekki. Samkvæmt þeim texta sem hér liggur fyrir þá er þetta viðbótarkostnaður ríkisins eða ríkissjóðs, bara svo því sé haldið til haga. En það er hægt að hafa skilning á því að erfitt sé að henda reiður á þessum tölum þegar jafn lítill gaumur hefur verið gefinn og raunin er að því að fjármagna þurfi verkefni sem þetta.

Nefndarálit meiri hluta velferðarnefndar liggur fyrir á sex blaðsíðum, undirritað eingöngu af fulltrúum meiri hlutans, sem er auðvitað sérstakt í sjálfu sér ef við höfum í huga allar þær fögru lýsingar sem viðhafðar hafa verið um samstarf og samráð í vinnslu þessa máls. Það væri áhugavert að vita hvað orsakaði það að þessa miklu samstöðu brast þarna undir lokin við vinnslu málsins og að það hafi verið tekið út úr velferðarnefnd í, að því er virðist, ósætti milli stjórnar og stjórnarandstöðu. En ég vil gagnrýna það sem ekki kemur fram í nefndaráliti meiri hlutans; þar er ekki einu orði vikið að fjármögnun málsins, sem er auðvitað í besta falli undarlegt þegar það segir beinlínis í frumvarpstextanum að ekki hafi verið gert ráð fyrir útgjöldum sem leiða af samþykkt frumvarpsins í fjármálaáætlun.

Ég vil hrósa fulltrúum minni hlutans í velferðarnefnd fyrir ágætt nefndarálit með breytingartillögu. Minni hlutinn er skipaður af hv. þm. Helgu Völu Helgadóttur, formanni nefndarinnar, sem er framsögumaður álitsins, Önnu Kolbrúnu Árnadóttur, Guðmundi Inga Kristinssyni og Halldóru Mogensen. Þau skrifa undir þetta nefndarálit. Þar er einmitt komið inn á þá gagnrýni sem m.a. er viðhöfð af Barnaverndarstofu en hún telur að ný verkefni Barna- og fjölskyldustofu séu rúmlega 100% dýrari en matið gerir ráð fyrir, 100%. Eitt væri nú ef kostnaðarmatið væri með skekkju upp á 100% — og þetta liggur fyrir í umsögnum. Þessi skoðun fellur ekkert af himnum ofan núna inn í þessa umræðu, þetta hefur legið fyrir í umsögnum til nefndarinnar um langa hríð. Eitt er það sem virðist vera þetta takmarkaða kostnaðarmat en annað er auðvitað ef á daginn kemur að fjármögnunin eftir árið 2021 sé í lausu lofti með það í huga að við samþykktum fjármálaáætlun til ársins 2026 síðastliðinn mánudag.

Ég vil aðeins halda áfram að vitna hér til nefndarálits minni hluta velferðarnefndar þar sem segir, með leyfi forseta:

„Eftir ómælda vinnu þingmannanefndar um málefni barna undanfarin ár og yfirlýsingar ráðherra um mikilvægi samvinnu og þverpólitískrar sáttar var þessari mikilvægu vinnu lokið á þann hátt að frumvörpin voru tekin út úr nefndinni í ágreiningi …“

Ég velti fyrir mér hvað skýri það að lætin eru slík í svona mikilvægu máli, máli þar sem ráðherrann meira að segja virðist hafa gleymt að taka tillit til fjármögnunarinnar, að það þurfi að rífa það út með þessum hætti úr nefndinni. Það vekur furðu. Hér heldur áfram í nefndarálitinu, með leyfi forseta:

„Eftir þverpólitíska samvinnu allt kjörtímabilið fór svo, vegna vinnubragða meiri hlutans við lok vinnslu málsins, að sprengd var sú góða samvinna og samstaða sem verið hefur í málinu.“

Það er auðvitað sérstakt að málið skuli fara í þennan farveg undir lokin en fulltrúar meiri hlutans í velferðarnefnd verða auðvitað að útskýra hver ástæða þess er. Það var reynt að rifja þetta upp áðan af því að nefndarmenn sem spurðir voru áttu erfitt með að útskýra þessi orð í greinargerð frumvarps ráðherra þar sem fram kemur að ekki hefur verið gert ráð fyrir kostnaði í fjármálaáætlun eftir árið 2021. Þá fór ég að skoða ræður eða samskipti hv. þm. Hönnu Katrínar Friðriksson við hæstv. velferðarráðherra, Ásmund Einar Daðason, í umræðum sem áttu sér stað 24. mars síðastliðinn um fjármálaáætlun, það plagg sem samþykkt var á mánudaginn. Þar spyr hv. þm. Hanna Katrín ráðherrann út í fjármögnunina og vísar m.a. í ýmsar umsagnir þar sem áhyggjum er lýst af skorti á skýrum línum í þeim efnum. Það er m.a. vísað til umsagnar Reykjavíkurborgar þar sem segir, með leyfi forseta:

„Fyrirhugað verkefni, verði það að lögum, mun verða umfangsmikið og kostnaðarsamt fyrir sveitarfélög og því nauðsynlegt að tryggja sveitarfélögum fjármögnun þess með nýjum tekjustofnum til frambúðar.“

Í umsögninni er hnykkt á 27. gr. Í umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga segir, með leyfi forseta:

„Margt er þó ennþá óljóst um útfærslu verkefna, fjármögnun og innleiðingu en lykilatriði er að virk samvinna náist þvert á ráðuneyti og þvert á stjórnsýslustig.“

Það er auðvitað rétt. Áhyggjum af fjármögnun málsins og kostnaðarskiptingu hefur verið flaggað ótal sinnum þannig að það er í meira lagi sérstakt ef það kemur á daginn nokkrum dögum fyrir áætluð þinglok að fjármögnunin sé ekki ljós hvað málið varðar.

Ég vík aftur að þessum samskiptum hv. þm. Hönnu Katrínar Friðriksson og hæstv. félags- og barnamálaráðherra Ásmundar Einars Daðasonar í umræðum um fjármálaáætlun þann 24. mars. Aðspurður hvort hann sé sáttur við fjármögnun málanna og það sem fram kemur í fjármálaáætlun varðandi breytingu á fjármögnun — svör ráðherrans voru nú eins og þau voru en hann segir m.a., með leyfi forseta:

„Virðulegur forseti. Stutta svarið við spurningu hv. þingmanns um hvort ráðherrann sé sáttur við fjármögnun málsins er: Já, hann er fullkomlega sáttur.“

Þetta er sami ráðherrann og skrifaði inn í frumvarpstextann, með leyfi forseta: „Að öðru leyti hefur ekki verið gert ráð fyrir útgjöldum sem leiða af samþykkt frumvarpsins í fjármálaáætlun.“ Það er 9. desember sem ráðherrann lætur þennan texta frá sér. Þann 24. mars segist ráðherrann vera fullkomlega sáttur. En um hvað ræðir ráðherrann síðan í framhaldinu? Þetta gengur allt út á hina svokölluðu hagrænu greiningu, þegar verið var að reikna út væntan hagrænan ávinning af málinu til næstu áratuga. Ég ber ekkert brigður á það, það er alveg örugglega hagrænn ávinningur af þessu máli enda markmiðin prýðileg. Það kemur bara því atriði ekkert við hvort málið sé fjármagnað eða ekki. Ráðherra segir áfram, með leyfi forseta:

„Það eru á bilinu 1,5–2 milljarðar á ári sem þessi kerfisbreyting mun kosta að frádregnum undirbúningi, gagnagrunni, innleiðingarteymi og öðru.“ — Hann reiknar með aðeins meiri kostnaði. — „Síðan skiptist það bæði á ríki og sveitarfélög. Það sem lýtur að ríkinu er inn á málefnasviði mínu í þessu frumvarpi. Það sem lýtur að sveitarfélögunum er inni í jöfnunarsjóði og hefur verið bætt þar inn. Þannig að málið er fullkomlega fjármagnað til næstu þriggja ára.“

Í fljótu bragði get ég ekki séð, en það verður vonandi leitt í ljós milli 2. og 3. umr. í velferðarnefnd, að sú breyting að málið sé fjármagnað hafi orðið frá því að frumvarpið var lagt fram 9. desember 2020, þar sem staðhæft er að málið sé ekki fjármagnað fyrir utan það sem er í fjárlögum fyrir árið 2021, það vanti sem sagt fjármögnun fyrir 2022, 2023 og 2024. Og enginn nefndarmanna sem ég hef farið í andsvör við í dag hefur getað svarað því til hvort einhver breyting hafi orðið í meðförum fjármálaáætlunar sem tryggi að þetta sé raunin. Ég skora á hv. velferðarnefnd að skoða þetta ítarlega.

Mig langar að koma inn á annað. Þetta voru nefnilega mjög athyglisverð samskipti hv. þm. Hönnu Katrínar Friðriksson við ráðherrann í mars og, með leyfi forseta, vitna ég hér í hæstv. ráðherra Ásmund Einar Daðason þar sem verið er að ræða um tölvukerfi sem hv. þm. Vilhjálmur Árnason kom inn á að væri mikilvægur hlekkur í þessu öllu:

„Við erum líka með það fjármagn sem við þurfum á yfirstandandi ári til að bjóða út sérstakan samskiptagrunn sem á að vera undirliggjandi í þessu kerfi til að aðstoða alla aðila að hafa samskipti í því. Það er verið að undirbúa það útboð, við höfum fjármagn til þess og til að setja upp sérstakt innleiðingarteymi. En við getum ekki sett það útboð af stað fyrr en þingið lýkur afgreiðslu málsins …“

Það hittist nú bara þannig á að þetta útboð er farið af stað. Ef það voru einhverjir fyrirvarar á því þá var mér sýnd útboðsauglýsingin bara áðan. Þannig að það er svo sem ekki mikið hald í þessum svörum hæstv. ráðherra frá því í mars í umræðu um fjármálaáætlun.

En ég verð nú bara, af því að ég las þessa skemmtilegu ræðu og ég hef gagnrýnt hæstv. velferðarráðherra undanfarið fyrir það að ráðherrann virðist varla komast fram úr á morgnana án þess að verja tugum milljóna af fjármunum skattgreiðenda til að styðja hina ýmsu hópa sem hann er áhugasamur um að sækja sér stuðning frá, að vitna í það sem segir hér í þessari ræðu — þetta tengist auðvitað ekki málinu en mér finnst þetta bara svo mögnuð setning að ég vil halda henni til haga. Það er hæstv. ráðherra Ásmundur Einar Daðason sem segir í þessum orðaskiptum við hv. þm. Hönnu Katrínu Friðriksson þar sem verið er að ræða fjármálaáætlun, með leyfi forseta.

„Ég held að ef hún hefði tekið mjög miklum breytingum hefði verið veruleg hætta á því, bara svo við tölum íslensku, að menn hefðu farið í alls konar innihaldslausan kosningaflaum í fjármálaáætlun. Það held ég að hefði ekki verið vænlegt til vinsælda eða til umræðna í þingsal.“

Þetta er kostuleg setning og skemmtileg og ég vildi halda henni til haga í ljósi þess hvaða ráðherra það er sem hélt þessu fram síðastliðinn mars. Þarna var ráðherrann auðvitað að útskýra hvers vegna fjármálaáætlun hefði breyst jafn lítið og raunin var, sem undirstrikar það enn og aftur að málið virðist vera ófjármagnað. Þegar skoðuð er framsaga hæstv. ráðherra frá 9. desember 2020 fyrir málinu þá virðist ekki vera gert ráð fyrir fjármögnun á nokkrum sköpuðum hlut utan þess sem snýr að þessu tölvukerfi sem ég nefndi áðan, sem er auðvitað bara smáhluti af þeim kostnaði sem liggur fyrir í kostnaðarmati, hversu rétt sem það kann nú að vera. Allt annað eru væntar framtíðartekjur af sparnaði, sem eru fínar en þær koma því bara ekkert við hvort málið sé fjármagnað.

Ég óska hv. velferðarnefnd velfarnaðar í þessari vinnu milli 2. og 3. umr. Ef raunin er sú að þessi fjármögnun liggur fyrir í fjármálaáætlun þá er það bara hið besta mál. En það er ekkert sem bendir til þess að það sé raunin miðað við svör nefndarmanna meiri hlutans í dag í andsvörum og miðað við það sem stendur beinlínis í frumvarpi ráðherrans þar sem segir, svo ég ítreki það aftur, með leyfi forseta: „Kostnaður vegna innleiðingar á árinu 2021 er fjármagnaður í fjárlagafrumvarpi ársins 2021.“ Þetta er óumdeilt, þetta liggur fyrir. En svo heldur hér áfram, með leyfi forseta: „Að öðru leyti hefur ekki verið gert ráð fyrir útgjöldum sem leiða af samþykkt frumvarpsins í fjármálaáætlun.“ Þetta getur ekkert verið skýrara. Þetta verður hv. velferðarnefnd að leiða í ljós því að ef þetta er raunin þá er þetta ágæta mál mögulega ótækt til afgreiðslu. En ekki er ég að leggja til frestun nema þá mögulega frestun sem snýr að því að hægt sé að klára tölvukerfi og annað slíkt, það eru einhverjir dagar eða mánuðir. (Forseti hringir.) En það verður að leiða í ljós hvað hér um ræðir því að gögn málsins benda til þess að þetta sé í lausu lofti.