131. löggjafarþing — 107. fundur,  11. apr. 2005.

Ríkisútvarpið sf.

643. mál
[21:17]

Jónína Bjartmarz (F):

Herra forseti. Ég á það erindi öðru fremur upp í ræðustól að lýsa yfir stuðningi við hið nýja frumvarp um Ríkisútvarpið. Mig langar í því samhengi að vísa til þess að í flokksþingsályktun Framsóknarflokksins eru allar þær áherslur hvað varðar Ríkisútvarpið sem lagðar eru í þessu frumvarpi. Þar segir m.a. að flokkurinn vilji að Ríkisútvarpið verði áfram í þjóðareign, það eigi að vera það og efla eigi sjálfstæði þess. Þar segir líka að hraða eigi endurskoðun laga um Ríkisútvarp þar sem m.a. stjórnskipulag stofnunarinnar verði skilgreint og tekið verði mið af nýju fjölmiðlaumhverfi. Síðan segir að skoðaðar verði mismunandi leiðir til að standa undir rekstrarkostnaði og að uppbyggingu og rekstri landshlutaútvarps verði haldið áfram og rekstrargrundvöllur tryggður.

Eins og þetta frumvarpið horfir við mér í stórum dráttum fellur það alfarið að þeirri stefnu sem Framsóknarflokkurinn hefur haft árum saman og þeirri afstöðu sem Framsóknarflokkurinn hefur árum saman haft til Ríkisútvarpsins, þ.e. að styrkja það faglega og fjárhagslega, að endurskipuleggja þurfi stjórnskipan Ríkisútvarpsins og í alla staði að byggja upp og standa vörð um það sem almannaútvarp. Allar þessar áherslur er að finna í frumvarpinu.

Ég hef verið að velta því fyrir mér í umræðunni í dag og hafði búist við því fyrir fram að þær áherslur sem koma fram í frumvarpinu og hinar viðamiklu breytingar sem lagðar eru til væru jafnframt í fullu samræmi og í takti við áherslur fleiri flokka á hinu háa Alþingi. Það er ekki alveg úr lausu lofti gripið og finnst mér líka að stefnan og áherslurnar í frumvarpinu séu í fullu samræmi við bæði skýrslu fyrri fjölmiðlanefndar, sem almennur einhugur var um hér á þingi að væri ágætlega unnin og margar góðar leiðir lagðar til, m.a. þær sem gengu út á að styrkja Ríkisútvarpið. Ég veit heldur ekki betur en að meginlínurnar í frumvarpinu séu í fullu samræmi við skýrslu seinni fjölmiðlanefndar og þær línur sem þar eru dregnar, ekki bara varðandi það hvernig skuli staðið að skipulagi Ríkisútvarpsins og að því að styrkja fjárhagsgrundvöll þess og rekstur, heldur jafnframt að hlutverki Ríkisútvarpsins í stærra fjölmiðlaumhverfi á Íslandi.

Mér hefur því, herra forseti, komið á óvart sú andstaða sem verið hefur í umræðunni í dag um þetta frumvarp. Ég hef beðið eftir því að fá að heyra eitthvað stefnumótandi og hvar stefna hinna flokkanna á Alþingi lægi í málefnum Ríkisútvarpsins.

Hv. þm. Mörður Árnason, sem ekki er í þingsal núna en er kannski einhvers staðar nærtækur, orðaði það svo í dag að stefnu Samfylkingarinnar væri að finna í þingmáli sem Samfylkingin hefði lagt fram, 400. máli á þingskjali 507. Ég ákvað að verða mér úti um málið og lesa í gegnum þá þingsályktunartillögu af því að ég hafði til þess tíma í dag. Ég verð að segja að mér fannst tillagan sérlega vel unnin og þingmálið ítarlegt í alla staði. Þess vegna kemur mér enn meira á óvart, eftir að hafa lesið það, sú andstaða sem mér heyrist ákveðnir hv. þingmenn Samfylkingarinnar hafi sýnt málinu sem hér er til umræðu.

Þó má í raun segja, þegar grannt er skoðað og ég leitaði grannt eftir stefnunni og einhverju ákveðnu sem hv. þingmenn vildu fá fram og sjá sem framtíð Ríkisútvarpsins, að komið hafi á daginn að í því ágæta máli Samfylkingarinnar, sem er tillaga til þingsályktunar, er einmitt enga stefnu að finna, sem er kannski ekki nema von vegna þess að þingmálið gengur út á að skipa nefnd. Samkvæmt þingsályktunartillögunni á sú nefnd m.a. að vinna þá vinnu sem þessar tvær fjölmiðlanefndir sem við öll þekkjum til hafa þegar skilað.

Það er óskaplega lítið að finna í þessu ágæta þingmáli um hver stefna Samfylkingarinnar er en þó má lesa hana út úr því að markmiðið með þessari vinnu og nýju frumvarpi sem Samfylkingin vill sjá um Ríkisútvarpið sé fyrst og fremst, það sem við öll erum sammála um, að það eigi að efla og sérstaklega með það fyrir augum að tryggja fjölbreytni í fjölmiðlun, þ.e. „að tryggja fjölmiðlafjölbreytni og leysa vanda sem fylgir eignasamþjöppun hjá markaðsmiðlum,“ eins og Samfylkingin orðar það í þessu máli.

Undir þetta allt saman get ég tekið og ætla bara að árétta það hér að við umræðuna sem var um fyrstu fjölmiðlanefndarskýrsluna á sínum tíma leyfði ég mér að leggja alla áherslu á þetta, að þetta væri árangursríkasta leiðin í fjölmiðlaumhverfinu og gagnvart þeirri samþjöppun á eignarhaldi sem við erum að tala um, að styrkja Ríkisútvarpið verulega faglega og fjárhagslega.

En ég ætla einnig að halda því til haga, sem bent var á í þessum ræðustól áðan, að einhverjir sjálfstæðismenn hafa séð hnökra á þessu frumvarpi. Það kann vel að vera að þegar menn fara yfir það í þingnefnd þá sjái þeir á því einhverja hnökra. Meðal annars hefur verið haft orð á því hér í dag að hin almenna skilgreining á hlutverki Ríkisútvarpsins sé allt of víð.

Hv. þm. Einar Karl Haraldsson nefndi áðan að stofnunin ætti fyrst og fremst að hafa visst menningarhlutverk. Það hljóta líka að vera svolítil átök um hvernig menn ætla að skilgreina menningu. Eiga menn við hina gömlu, þjóðlegu, íslensku menningu eða eru menn tilbúnir að styðja að hún sé skilgreind í einhverju víðara samhengi? Við getum deilt um hvort hlutverkið er skilgreint of þröngt eða vítt en ég áskil mér allan rétt til að hafa skoðun á því þegar farið verður að vinna í þessu máli og taka tillit til ábendinga sem hér hafa komið fram um að það séu hugsanlega einhverjir hnökrar á málinu sem færa megi til betri vegar.

Í þessu ágæta máli Samfylkingarinnar, þar sem ég hélt að væri að finna stefnu Samfylkingarinnar sem kom á daginn að var ekki, eru ótal ábendingar í ýmis gögn og skýrslur, m.a. til tilmæla ráðherraráðs Evrópuráðsins, samþykkta ráðherrafundar og annars. Allt gögn sem vísað er til í skýrslu bæði fyrri og seinni fjölmiðlanefndarinnar. Þar er jafnframt vísað í Prag-samþykktina frá 1994, sem hv. þm. Einar Karl Haraldsson vísaði til áðan og taldi upp ýmis atriði sem þar eru tekin fram. Þar er og vísað í tilmæli Evrópuráðsins um sjálfstætt almannaútvarp.

Í áðurnefndri tillögu eru færð rök fyrir því að vinna að þessu í nefndarstarfi þar sem að komi fræðimenn, stjórnmálamenn og aðrir, sem er nákvæmlega hið sama og tvær fjölmiðlanefndir hafa gert, ekki síst sú síðari. Í henni var meira að segja tryggð aðkoma allra flokkanna á þingi, andstætt því sem mig minnir að hafi verið í fyrri fjölmiðlanefnd. Margt af því sem bent er á í þessu máli að gera þurfi og taka á varðandi Ríkisútvarpið er akkúrat gert í því stjórnarfrumvarpi sem menntamálaráðherra hefur mælt fyrir og við fjöllum um í dag.

En í fáum orðum sagt, herra forseti, lýsi ég yfir stuðningi við þetta mál. Ég geri ráð fyrir að það fái töluverða umfjöllun í nefnd og þá verði kallaðir til ýmsir hagsmunaaðilar sem muni tjá sig um ákvæði frumvarpsins og lýsa skoðunum sínum á því. En mér fannst gleðilegt, eins og mörgum öðrum, að það skyldi nást sátt hjá þeim aðilum sem sátu í fjölmiðlanefndinni, að menn skyldu ná sátt um allar meginleiðir. Ég leit þannig á að nefndin hefði skilað frá sér tilteknum heildarlausnum. Og mjög ofarlega þar á blaði, þótt tekið væri fram að því væri ekki forgangsraðað, var það einmitt það sem ég tel að felist í þessu frumvarpi, að styrkja stöðu Ríkisútvarpsins, almannaútvarps á Íslandi. Mér hefur því komið á óvart andstaðan við þetta frumvarp, einnig vegna þess að maður hefur heyrt aðeins út undan sér að þetta megi ekki afgreiða eitt og sér og ekki fyrr en þá allar tillögur fjölmiðlanefndarinnar líta dagsins ljós.

Þeir sömu og mælt hafa með þeirri málsmeðferð höfðu orð á því í umræðunni á sínum tíma, og tóku undir með mér þegar við ræddum um fyrstu skýrsluna, að þetta væri fyrsta skrefið og mundi jafnvel nægja til að vinna gegn samþjöppun á eignarhaldi sem mörgum hefur verið þyrnir í augum.