131. löggjafarþing — 107. fundur,  11. apr. 2005.

Ríkisútvarpið sf.

643. mál
[21:59]

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður gat þess að hann vildi ráða útvarpsstjóra án pólitíkur, án stjórnmálaáhrifa. Nú er það svo að ríkið, sem er allt annað en þjóðin, er pólitískt í sjálfu sér vegna þess að það er kosið til Alþingis í pólitískum kosningum og meiri hluti Alþingis tilnefnir ráðherra, pólitískt. Allt ríkið er meira og minna þess vegna pólitískt. Hvernig sér hv. þingmaður fyrir sér að hægt sé að ráða útvarpsstjóra án þess að pólitík komi inn í spilið? Hann nefndi glæsilega niðurstöðu fjölmiðlanefndar sem dæmi. Vill hann þá hafa það þannig í rauninni að sérhver aðili í stjórnkerfinu eða á Alþingi hafi neitunarvald þegar á að ráða útvarpsstjóra? Eiga fleiri starfsmenn RÚV að falla undir þessa reglu, t.d. fréttastjórar? Það getur nú verið skemmtilegt að ráða mann ef sérhver þingmaður gæti verið á móti því og þar með yrði maðurinn ekki ráðinn. Það getur tekið dágóðan tíma giska ég á, herra forseti. Mig langar til að fá svör við því hvernig í ósköpunum menn sjá fyrir sér kerfi þar sem útvarpsstjóri yrði ráðinn án þess að pólitík kæmi nálægt.