131. löggjafarþing — 107. fundur,  11. apr. 2005.

Ríkisútvarpið sf.

643. mál
[22:01]

Jóhann Ársælsson (Sf) (andsvar):

Ég vil ekki, hæstv. forseti, að Ríkisútvarpið verði ríkisstjórnarútvarp heldur að víðtækari sátt verði um það hvernig foringi þess yrði ráðinn. Mér finnst aukinn meiri hluti koma til greina t.d. í þessu útvarpsráði til þess að ná saman um ráðningu útvarpsstjóra og að hann yrði ráðinn til tiltekins afmarkaðs tíma eins og þjóðleikhússtjóri t.d. Hann mundi hins vegar ráða sína undirmenn og menn væru ekki að skipta sér af því, svo ég svari því líka.

Ég held að með þessu væri hægt að gera þessari menningarstofnun kleift að hafa nógu mikið sjálfstæði til þess að geta sinnt sínu hlutverki án pólitískra afskipta og án pólitískra átaka sífellt um stofnunina. Þetta er ein leiðin. Svo er auðvitað hægt að láta kjósa útvarpsstjóra beint. Nú tala menn um meira og meira beint lýðræði. Ég tel að minnsta kosti fulla ástæðu til að velta því fyrir sér hvort þetta embætti gæti þá ekki verið eitt af þeim sem menn skoði í því samhengi.