131. löggjafarþing — 107. fundur,  11. apr. 2005.

Ríkisútvarpið sf.

643. mál
[22:43]

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er sammála hv. þingmanni hvað það varðar að auðvitað má skoða forgangsröðun um hvernig peningum er varið innan svona stórrar stofnunar eins og Ríkisútvarpið er. Það má sannarlega skoða, undir það tek ég.

En hitt vil ég minna hv. þingmann á að það er sitt hvað íslensk dagskrárgerð og íslensk dagskrárgerð. Við getum boðið út alla heimsins dagskrárgerð og látið leikfélög úti um landsbyggðina búa til sjónvarpsþætti, jú jú. Út úr því kæmi ákveðin tegund þátta, ákveðin tegund dagskrárgerðar. En hún mundi ekki jafnast á við þá fagmennsku sem hefur verið safnað upp í stofnuninni með áralangri reynslu starfsfólks. Ég hef gagnrýnt það á hvern hátt sú fagmennska hefur í sjálfu sér verið brotin niður með útboðsstefnu t.d. Sjálfstæðisflokksins. Útboðsstefnan hefur verið stunduð hjá sjónvarpinu til mikils skaða fyrir gæði innlendrar dagskrár.

Ég hef sjálf starfað hjá sjónvarpinu og minnist þess þegar áhöfnin í stúdíóinu var orðin svo fáliðuð að það varð að láta kvikmyndatökumennina ganga í verk hljóðmannanna og hljóðmennina ganga í verk ljósamannanna. Hvar endar það? Það endar í útvötnun og því miður ófagmannlegum vinnubrögðum.

Ríkisútvarp, sem er flaggskip innlendrar dagskrárgerðar í sjónvarpi, verður að eiga þess kost að búa til almennilega fagmenn, fagmenn sem geta nýtt þekkingu sína og reynslu og blómstrað á grunni þeirrar þekkingar og þeirrar fagmennsku. Það gerum við ekki með eilífum útboðum. Þau þynna út dagskrána og níða niður fagmennskuna.