132. löggjafarþing — 107. fundur,  24. apr. 2006.

Sjóræningjaveiðar á Reykjaneshrygg.

[15:41]
Hlusta

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég fagna því að hæstv. sjávarútvegsráðherra hafi áhuga á málinu. Hann hefur sýnt það í verki eins og hann fór hér ágætlega yfir áðan. Ég hvet hann áfram til að leita allra þeirra leiða sem mögulegar eru til að komast fyrir þessar ólöglegu veiðar. Ég verð að segja að mér eru það nokkur vonbrigði að vinaþjóðir okkar hjá Evrópusambandinu skuli leyfa skipunum að koma sér upp vistum áður en þau fara á veiðar á þessu hafsvæði.

Þetta segir okkur að við þurfum að gæta hagsmuna okkar hvað varðar auðlindina. Það er enginn betur til þess fallinn en íslensk stjórnvöld. En ég vil spyrja ráðherra: Hvaða næstu skref koma til? Kemur til greina af hálfu íslenskra stjórnvalda að ganga lengra og (Forseti hringir.) fara að tilmælum eða ábendingum framkvæmdastjóra Landssambands íslenskra útvegsmanna?