135. löggjafarþing — 107. fundur,  23. maí 2008.

tilkynning um dagskrá og tilhögun þingfundar.

[10:35]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Þetta er algerlega óframbærileg tillaga af hálfu forseta. Það er ekki hægt í byrjun fundar að boða það að dagskrá skuli tæmd. Það er ekki í samræmi við nein ákvæði þingskapa og hefur enga stoð þar. Það sem forseti getur lagt til er lengri þingfundur, þó innan einhverra ásættanlegra og hóflegra marka. Auðvitað ætti forseti að tilgreina, ef það er ætlun manna að halda lengri fund en fram á síðdegið í dag, á föstudegi, að það gæti þá orðið eitthvað inn í kvöldið og helst tilgreina þar tímamörk.

Það var næturfundur í nótt og það getur varla verið ætlun forseta að halda marga slíka í röð þvert á svardagana um að þeir heyri nú sögunni til, þökk sé hinum nýju þingsköpum. Auðvitað ætti forseti að bera upp tillögu um að menn ættu að búa sig undir að fundur gæti staðið eitthvað lengur, eitthvað inn í kvöldið en þó ekki lengur en til kl. 8 eða 9 eða eitthvað svoleiðis sem gæti kannski talist ásættanlegt. Svona tillögu getur forseti ósköp einfaldlega ekki borið upp og ég spyr hann að því: Hvar stendur það í þingsköpunum að forseta sé heimilt að (Forseti hringir.) ákveða að fundur standi óendanlega þar til dagskrá einhvers tiltekins fundar er tæmd?