139. löggjafarþing — 107. fundur,  7. apr. 2011.

innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta.

237. mál
[16:05]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta viðskn. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Fyrst aðeins út af Icesave, mér finnst ákveðin minnimáttarkennd koma fram hjá hv. þm. Magnúsi Orra Schram fyrir hönd íslensku þjóðarinnar. Það er mikið alið á þessu. Menn geta haft allar skoðanir á því hvort það eigi að segja já eða nei en ég held að sú minnimáttarkennd sem þarna kemur fram sé stórhættuleg.

Almenna reglan hjá þjóðum sem við berum okkur saman við er í fyrsta lagi að gæta hagsmuna sinna og í annan stað þegar þær gera samninga sem viðkomandi þjóð hafnar í þjóðaratkvæði er það lagt aftur fyrir þjóðina. Þó að menn láti fulltrúa stjórnmálaflokka eða löggjafarþings setjast niður og semja um milliríkjasamninga er engin trygging fyrir því að viðkomandi þing klári það. Það er fáránlegt að halda því fram að Íslendingar verði að ganga frá samningum ef þeir hafa sest að samningaborðinu. Þeir hljóta að meta samninginn þegar hann er kominn.

Ég tel að stjórnarandstaðan hafi gert hvað hún gat til að bjarga því sem bjargað yrði í þessu, og sömuleiðis þjóðin, frá sinni eigin ríkisstjórn. Menn hafa svo sannarlega rétt til þess að gera það áfram ef þeir telja að það sé best fyrir íslenska hagsmuni.

Varðandi það hvað ég vil gera og hvort ég vil hafa þessa yfirlýsingu í gildi, bara svo það sé sagt, er ekki búið að lögfesta neina ábyrgð á innstæðum í bönkum. Núna eru innstæðurnar 1.491 milljarður kr., ein landsframleiðsla. Svo verður hver og einn að meta hvort það sé trúverðugt að íslenska ríkið geti staðið á bak við það allt saman ef til þess kæmi.

Þetta er einn þáttur í því að endurskipuleggja fjármálakerfið, við eigum eftir að fara í alla þá vinnu. Við eigum eftir að fara í að meta hvernig bankakerfi við viljum sjá. Hvert stefnum við í því? Hvernig ætlum við að takmarka áhættu skattgreiðenda í því? Það er stærsta einstaka málið. Við gerum það ekki (Forseti hringir.) með því að samþykkja þessi lög en það þarf fleira að koma til. Ég get því miður ekki svarað öllum þessum spurningum en reyni að halda áfram með þær á eftir.