140. löggjafarþing — 107. fundur,  25. maí 2012.

heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði.

718. mál
[12:34]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Ásbjörn Óttarsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get ekki svarað þessari spurningu hv. þingmanns afgerandi. Eins og kom fram við meðferð málsins, sama hvort það var IFS Greining eða Ríkisábyrgðasjóður, þá styðjast menn við umferðarspá Vegagerðarinnar, það eru ekki aðrar forsendur til.

Hins vegar er rétt að undirstrika það að þegar lagt var af stað í verkefnið var settur ákveðinn byrjunarreitur sem átti að ganga út frá eftir umferðarspá Vegagerðarinnar en staðan er núna 10% lægri en gert var ráð fyrir. Það er það eina sem við vitum og getum sagt til um með vissu.

Ég verð að segja að mér fannst hugmyndir eða bollaleggingar hjá hv. þingmanni mjög áhugaverðar. Mér hafði ekki dottið þær í hug við meðferð málsins. Svarið kemur í ljós í framtíðinni, en eins og hv. þingmaður benti á er hugsanlega að verða ákveðin breyting á umferðarmynstri hjá þjóðinni, til að mynda vegna aukinna almenningssamgangna eða einhverra annarra þátta. Þetta er mjög áhugaverð bollalegging sem ég treysti mér ekki til að skilgreina frekar en hv. þingmaður væntanlega, en þetta er auðvitað þróunin sem við munum sjá í framtíðinni.

Ég verð að segja, og það kemur skýrt fram í nefndaráliti okkar, að þótt allar forsendur gangi eftir nema vaxtaþátturinn, sem er að sjálfsögðu stærsti óvissuþátturinn, mun verkefnið ekki ganga eftir. Það er voðalega vont að hafa ekki borð fyrir báru í þessu verkefni eða einhverjum öðrum því að það þarf lítið út af að bregða til að verkefnið gangi ekki upp.

Pælingin er áhugaverð og mun auðvitað koma í ljós á næstu árum (Forseti hringir.) hvort bollalegging hv. þingmanns reynist rétt.