141. löggjafarþing — 107. fundur,  19. mars 2013.

opinber innkaup.

288. mál
[23:24]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Helgi Hjörvar) (Sf):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti á þskj. 1215, um opinber innkaup. Ég ætla út af fyrir sig ekki að rekja nefndarálitið enda liggur það fyrir á þingskjalinu og þingmenn geta kynnt sér það ásamt með þeim breytingartillögum sem meiri hlutinn leggur til. Á nefndarálitinu eru auk Helga Hjörvars þeir hv. þingmenn Skúli Helgason, Magnús Orri Schram, Árni Þór Sigurðsson og Lilja Rafney Magnúsdóttir.

Frumvarpið er fyrst og fremst innleiðing á tilskipun 2007/66/EB sem lýtur að aukinni skilvirkni í kæruleiðum í opinberum útboðsmálum og gerir nefndin nokkrar breytingar á frumvarpinu við 2. umr. Þar er kannski helst til að taka að fjárhæðarmörk þess sem útboðsskylt er eru hækkuð nokkuð, einkanlega í tilfelli vöru og þjónustu þar sem þau hækka úr liðlega 7 milljónum í 11,5 milljónir. Þau gætu út af fyrir sig verið allt að 21 milljón Evrópureglnanna vegna en nefndin taldi ekki ástæðu til að fara hærra með þessi mörk en almennt gerist á Norðurlöndunum og ekki heldur til að fara neðar með þessi mörk eins og verið hefur.

Þá eru gerðar nokkrar breytingar til að árétta gildissvið það sem kærunefndin nær til, það sem undir hana fellur, og í því sambandi vísað til tilskipunarinnar og þeirra gerða sem hún vísar til. Það er ástæða til að árétta hér við 2. umr. að auðvitað takmarkast þau áhrif í innlendum rétti við þær gerðir sem hafa verið innleiddar í íslenskan rétt en ekki aðrar.

Þá eru aðrar minni háttar breytingar sem finna má á þskj. 1215 og ég hvet hv. þingmenn til að kynna sér um leið og ég mæli með því að frumvarpið verði, að samþykktum þessum breytingum, samþykkt og afgreitt til 3. umr.