144. löggjafarþing — 107. fundur,  15. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[15:56]
Horfa

Páll Valur Björnsson (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna, þessa yfirgripsmiklu yfirferð yfir launamál. Ég vil taka undir það með honum að auðvitað ættum við að vera að ræða um það í dag hvernig við getum tekið á því vandamáli sem á sér stað í samfélaginu. Fyrir mér er það hreinlega óskiljanlegt að við skulum hafa látið þetta fara alla þessa leið.

Við deilum því að við viljum auka samráð og samvinnu hér á Alþingi. Það hafa verið skrifaðar skýrslur um það, rannsóknarskýrsla Alþingis og skýrslan um traust til alþingismanna, og hvers vegna í ósköpunum förum við ekki eftir þessu? Hvað veldur því? Og hvað veldur því að þessi ríkisstjórn, sem skrifaði inn í stjórnarsáttmála sinn svo flott orð að maður kiknar í hnjánum þegar maður les þau, fer algjörlega þveröfugt að í þessu máli og efnir til ófriðar í hverju málinu á fætur öðru?

Mig langar til að spyrja þingmanninn: Af hverju heldur hann að þetta sé að gerast?