144. löggjafarþing — 107. fundur,  15. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[15:57]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég held það sé vegna þess sem hæstv. ráðherra Bjarni Benediktsson orðaði mjög vel, hann sagði bara: Meiri hlutinn ræður. Hann er að sjálfsögðu minni hlutinn af meiri hlutanum sem ræður í raun þegar öllu er á botninn hvolft, en menn vilja ráða. Menn vilja ekkert sleppa því. Þeir vilja bara fá að ráða og stjórna þessu. Það er ástæðan. En fólkið er orðið þreytt á þessu. Landsmenn eru orðnir þreyttir á þessu.

Fyrir tíu árum sátum við fyrir framan sjónvarpið og tókum inn upplýsingar sem þiggjendur alltaf. Með samfélagsmiðlunum erum við alltaf að taka þátt í umræðum á hverjum einasta degi, alltaf að móta okkur stefnu, alltaf að tala við aðra, sjá hvað öðrum finnst. Það gjörbreytir gildismati fólks. Fólk hefur réttmætar væntingar til þess að taka meiri þátt í ákvörðunum. Það að kjósa á fjögurra ára fresti einhverja menn sem fá síðan að ráða öllu, það er ekki það sem fólk vill. Þetta er samt sem áður hefðin og það er erfitt að breyta henni, en hún breytist náttúrlega þegar menn sjá (Forseti hringir.) að þeir missa sæti sitt og missa völdin (Forseti hringir.) ef þeir gefa ekki svolítið frá sér.