145. löggjafarþing — 107. fundur,  3. maí 2016.

fjármálastefna 2017--2021.

741. mál
[14:54]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Ég skil hann svo að inni í 30 milljörðunum sé stofnkostnaður og að ekki sé gert ráð fyrir því að kostnaðarþátttaka í heild, þátttaka sjúklinga í kostnaði við heilbrigðiskerfið, verði lækkuð á þessu tímabili.

Fram kemur í áætluninni að markmið með barnabótum sé eingöngu stuðningur við tekjulægstu fjölskyldurnar. Ég var hissa á því að lesa það vegna þess að ég gerði einhvern veginn ráð fyrir því að við vildum stefna með barnabæturnar meira í áttina að því sem gerist annars staðar á Norðurlöndum.

Fram kemur í áætluninni að leitað sé í smiðju Alþjóðagjaldeyrissjóðsins við endurskoðun á barnabótakerfinu. Ég spyr hæstv. ráðherra: Hefði ekki verið betra að leita til Norðurlandanna og leita fyrirmynda í barnabótakerfinu þar? Það (Forseti hringir.) hefur reynst mjög vel þar.