150. löggjafarþing — 107. fundur,  20. maí 2020.

tófa og minkur.

545. mál
[17:36]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnirnar og þingmönnunum fyrir að taka þátt í umræðunni. Ég átti eftir að koma inn á spurningu hv. þingmanns um veiðitölur. Umhverfisstofnun safnar upplýsingum um veiðar á villtum dýrum og á tíu ára tímabili, 2008–2017, voru veiddir um 6.000–8.500 refir og 2700–6.700 minkar árlega. Þess ber að geta að refir eru veiddir allt árið um kring og fengnum er skipt eftir því hvort um fullorðin dýr eða yrðlinga er að ræða. Útgefnar veiðitölur stofnunarinnar eru því heildartölur og íslenski refastofninn er talinn vera um 7.500 fullorðin dýr. Af veiðitölunum sem eru 6.000–8.500 refir árlega sést að veiðiálagið er mjög hátt en samt hefur stofninn haldist nokkurn veginn stöðugur á undanförnum árum. Það er mjög áhugavert. Hlutfall yrðlinga í heildarveiðinni er því talsvert hátt, allt að 35%.

Ég sagði áðan að ekki hefði verið sýnt með rannsóknum fram á neikvæð áhrif á viðgang eða stofnstærð mófugla eða bjargfugla af völdum refa hér á landi. Líkt og hv. þingmaður benti á eigum við kannski ekki nægar rannsóknir til að sýna fram á tengsl þarna á milli og mér þykir miður að við eigum þær ekki vegna þess að við getum öll tekið undir að auðvitað eru áhrif af ref rétt eins og mink á fuglalíf. Því er mikilvægt að við höfum rannsóknir sem við getum byggt á og þess vegna er við endurskoðun laganna um villta fugla og villt spendýr mjög mikilvægt að við komum inn ákvæði um að sýnt sé fram á tjón frá meintu vargdýri (Forseti hringir.) þannig að rannsóknir liggi fyrir sem hægt sé að byggja á við ákvarðanatökuna. Ég tel það mjög mikilvægt í þessu máli eins og öðrum.