150. löggjafarþing — 107. fundur,  20. maí 2020.

reynsla af breyttu skipulagi heilbrigðisþjónustu utan höfuðborgarsvæðisins.

572. mál
[18:37]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka enn og aftur fyrirspyrjandanum fyrir spurningarnar og hv. þm. Guðjóni Brjánssyni fyrir sínar viðbætur. Ég held að við getum sagt: Núna erum við að mörgu leyti á svona viðbótarlærdómsskeiði sem er þessi faraldur sem íslenska heilbrigðiskerfið er að glíma við. Eins og alltaf er með áföll eins og íslenskt samfélag horfist í augu við nú um stundir koma í ljós mestu styrkleikar kerfanna okkar og líka mestu veikleikar þeirra, þannig að við sjáum dálítið hratt inn í rótina á því sem við erum með í samfélaginu. Það er margt við viðbragð íslenskrar heilbrigðisþjónustu sem gefur okkur tilefni til að vera afar stolt af heilbrigðiskerfinu okkar. Það er í grunninn opinbert heilbrigðiskerfi, það er leiðin sem við höfum valið að fara á Íslandi. Það er farsæl leið. Það er leiðin sem snýst um að vera með samhæft og öflugt opinbert heilbrigðiskerfi þar sem þættirnir spila saman og fólk talar saman.

Ég hef á mínum tíma komið á föstu samráði við alla forstjóra heilbrigðisstofnananna sem skiptir mjög miklu máli í þessu og hefur komið sér mjög vel í gegnum Covid-19 faraldurinn. Þar hafa þessir forstjórar stutt hver annan og staðið saman í gegnum þessar áskoranir.

Hv. þm. Guðjón Brjánsson veltir sérstaklega fyrir sér þessu með hvatana sem hafa vissulega verið reyndir á höfuðborgarsvæðið og gefist vel að flestu leyti en þetta er ekki endanlegt fyrirkomulag. Við erum að skuggakeyra, eins og það heitir núna, greiðslumódel fyrir heilsugæsluna á landsbyggðinni. Við erum að því nú á árinu 2020 í því skyni að sjá með hvaða hætti við þurfum að aðlaga kerfið að ólíkum aðstæðum í hinum dreifðu byggðum og því sem er hér á höfuðborgarsvæðinu og ég vænti þess að það komi gott kerfi út úr því, þannig að það er á plani.

Ég tek svo undir það sem hv. þingmaður nefndi með fjarheilbrigðisþjónustu, bráðaþjónustu (Forseti hringir.) og sjúkraflutninga. Þjónustukortið er á borði sveitarstjórnarráðherra, ég hef séð það í drögum.