150. löggjafarþing — 107. fundur,  20. maí 2020.

viðbrögð við lagafrumvörpum um afglæpavæðingu neysluskammta, sölu áfengis í vefverslun og neyslurými.

658. mál
[19:21]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Ásmundur Friðriksson) (S):

Virðulegi forseti. Það er alveg rétt að kallað hefur verið eftir því að Frú Ragnheiður verji þá einstaklinga sem þurfa að eiga skjól þar og ég hef tekið undir það. En að opna slíkt úrræði fyrir alla nýja fíkla er að mati meðferðarfulltrúa afar hæpin ráðstöfun. Það er enginn að tala um að fólk eigi að éta það sem úti frýs í því sambandi. Það hefur margoft komið fram. Það kemur mér líka á óvart að ráðherra skuli snúa út úr fyrir mér þegar hún svarar þessum spurningum, ég átti hreinlega ekki von á því. Ég spurði um kostnaðarmat af áhrifum þessara frumvarpa ef þau yrðu að lögum, en ekki hvaða kostnaður ætti að hljótast af því hverju og einu. Ég er svolítið hugsi yfir því að hæstv. heilbrigðisráðherra skuli ekki hafa áhyggjur af því í sambandi við þessi frumvörp og þingsályktunartillögur og það sem er í burðarliðnum muni hafa áhrif á aukna neyslu. Það er bara þannig að allt aukið aðgengi mun hafa þau áhrif. Það er alveg sama hvað menn vilja beita miklu frjálsræði í þessum efnum, það er ekki hægt að berja höfðinu við steininn varðandi það. Þannig er það bara. Það er alveg sama hvort menn eru að selja eiturlyf eða ópal, því nær manni sem varan er og því auðveldara sem það er að nálgast hana þeim mun meira er notað af henni.

Þess vegna spyr ég ráðherra hvort hún hafi engar áhyggjur af því að nú þegar eru u.þ.b. 1.000 einstaklingar á biðlistum — ég notaði orðið „meðferðarheimili“ en það stóð „meðferðarheimila“ og það er óþarfi að snúa út úr því. Ég er að tala um þau fyrirtæki og stofnanir sem annast þessa sjúklinga. Er ekki meiningin að þegar við aukum aðgengið eigi að sama skapi að auka í forvarnirnar og hjálpina?