150. löggjafarþing — 107. fundur,  20. maí 2020.

bifreiðaskoðanir og þjónustuskylda.

651. mál
[20:04]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin og þeim þingmönnum sem hér hafa tekið þátt. Ég lýsi ánægju minni með að það er vilji til að grípa inn í þetta mál. Ég veit að ráðherra fékk bréf frá héraðsnefnd Þingeyinga, dagsett 5. mars. Við þingmenn Norðausturkjördæmis fengum það líka. Eins og þar var sagt þarf að vera trygging fyrir því að þessi þjónusta verði veitt. Það er ekki eðlilegt að aka þurfa 300 km til að láta skoða bílinn sinn.

Hvaða leiðir sem við finnum til lausnar, hvort sem það eru færanlegar skoðunarstofur eða annað, er ljóst að markaðurinn virðist ekki geta leyst þetta mál, ekki ef við horfum á kortið og til þess að búið er að segja upp samningum og fyrir liggur að loka á þessum stofum. Þá er það spurning, eins og ráðherra orðaði það, að þvinga fram einhver samningsskilyrði. Þegar við horfum á byggðakortið á þessu svæði vitum við alveg hvernig það lítur út. Þetta er mjög viðkvæmt svæði, allur þessi hluti landsins frá Raufarhöfn alveg norður á Þórshöfn, og það er ekki á bætandi að þessi þjónusta hverfi líka. Ég vona sannarlega að ráðherra segi í síðara svari sínu við mig og okkur hér að gripið verði inn í til að þetta verði ekki raunveruleg staða, að lögbundið eftirlit þurfi að fara fram með þeim hætti sem íbúar þessara svæða standa frammi fyrir núna.