150. löggjafarþing — 107. fundur,  20. maí 2020.

fasteignafélagið Heimavellir.

583. mál
[20:39]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir. Ég held að við deilum þeirri skoðun varðandi húsnæðismálin almennt að það er ekki hægt að láta þau óbeisluðum markaðnum eftir. Það er mín skoðun að það hafi verið allt of ríkjandi í íslensku samfélagi að húsnæðismál séu bara málefni markaðarins. En húsnæðismál eru sannarlega velferðarmál vegna þess að þau eru ein af þeim grunnþörfum sem hver fjölskylda þarf að fá uppfylltar og eitt af því sem getur skilið á milli þess hvort fólk býr við það öryggi og fær tækifæri sem við viljum að allir fái í íslensku samfélagi.

Varðandi það sem rætt er hér, um Heimavelli og þetta mál á Akranesi, þá held ég að þar hafi ekki skort eftirlit vegna þess að í rauninni var uppfyllt það ákvæði sem fylgdi lánveitingunni. Það var ekki brestur í eftirliti sem þarna skipti sköpum. Hins vegar má velta því fyrir sér hvort það sé yfir höfuð skynsamlegt að stjórnvöld, hvort sem það er framkvæmdarvald eða löggjafarvald, séu að fela einkaaðilum það hlutverk að halda úti félagslegri þjónustu, sem húsnæðismál eru og eins og nefnt var í þessu dæmi. Þess vegna hef ég verið þeirrar skoðunar að við þurfum að vera með sérstakt leigufélag sem sinnir þeim svæðum sem markaðurinn vill ekki sinna. Þess vegna var Leigufélagið Bríet stofnað.

Það er gaman að segja frá því að ég veit að forsvarsmenn Bríetar, sem er sjálfstætt leigufélag í opinberri eigu, hefur verið í sambandi við Akranes í framhaldi af þessu máli og hefur verið gengið frá einhvers konar viljayfirlýsingu um að Bríet muni koma að uppbyggingu leiguhúsnæðis þar. Verið að móta það frekar. Ég sé fyrir mér að við eigum eftir að gera meira af þessu og við eigum ekkert að vera hrædd við það. Þetta gera Finnar, meira að segja jók hægri stjórnin í Finnlandi, sem var starfandi á síðasta kjörtímabili, hlutafé þessa opinbera félags með beinum fjárfestingum. Ég held að ekkert sé athugavert við það vegna þess að húsnæðismál eru velferðarmál en ekki bara málefni hins frjálsa markaðar.