151. löggjafarþing — 107. fundur,  4. júní 2021.

um fundarstjórn.

[13:02]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Sf):

Herra forseti. Þetta snertir akkúrat þingið og snertir akkúrat starfsemi á fundi hv. utanríkismálanefndar sem boðað var til eftir að hæstv. utanríkisráðherra var búinn að tala við fjölmiðla um meiri háttar utanríkismál, sem er fríverslunarsamningur við annað ríki sem er eitt af okkar helstu samstarfsríkjum þegar kemur að viðskiptum og menningarlegum samskiptum.

En ég vil líka minna á það, eins og hv. þm. Logi Einarsson sagði hér á undan, að utanríkismálanefnd skal, samkvæmt 24. gr. þingskapa, vera ríkisstjórninni til ráðuneytis um meiri háttar utanríkismál, enda skal ríkisstjórnin ávallt bera undir hana slík mál en ekki Bylgjuna eða Moggann daginn fyrir prófkjörsslag í flokki hæstv. utanríkisráðherra. Sögulega séð hefur hv. utanríkismálanefnd haft þetta mikilvæga hlutverk sem snýst um utanríkismál og kominn tími til að þingið fái þá virðingu sem það á skilið, og utanríkismálanefnd, en að valdið sé ekki notað með þessum hætti og umgengni við það sé með þeim hætti sem hér sást í morgun.