151. löggjafarþing — 107. fundur,  4. júní 2021.

samþætting þjónustu í þágu farsældar barna .

354. mál
[13:40]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Herra forseti. Hér er um að ræða örlitla breytingu þannig að í sérstökum undantekningartilvikum, þegar um sérstök og persónuleg tengsl barns og/eða foreldra er að ræða eða hefur verið að ræða við tengilið barns inni í skóla, geti barnið eða foreldri óskað eftir nýjum tengilið fyrir barnið. Tengiliður barns, fyrir þau sem ekki þekkja málið, er sá einstaklingur sem á að hafa utanumhald með allt er varðar barnið frá því að það hefur skólagöngu og til loka. Í einstaka tilvikum, sérstaklega í smáum samfélögum, getur verið þannig samband eða hafa verið þannig samband milli barnsins og tengiliðar, eða fjölskyldu og tengiliðar, að það sé óheppilegt að tengiliðurinn sé í öllum persónulegum málum barns og fjölskyldu. Hér erum við að gefa þann möguleika að hægt sé að óska eftir því að einhver annar sé tengiliður en þessi tiltekni einstaklingur. Við erum að tala um mögulega fyrri tengsl við fjölskyldu, fyrrverandi kærasti eða kærasta foreldris eða önnur persónuleg tengsl, að hægt sé að óska eftir í algerum undantekningartilvikum.