Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 107. fundur,  10. maí 2023.

stjórn fiskveiða.

596. mál
[17:47]
Horfa

Teitur Björn Einarsson (S):

Frú forseti. Hér við 3. umr. þessa frumvarps vil ég gera betur grein fyrir þeim skilningi sem ég hef á breytingartillögu sem birtist í nefndaráliti meiri hluta atvinnuveganefndar á þskj. 1696 og fylgir nefndarálitinu sem ég er á. Þar er orðalag sem, ef það er lesið með ákveðnum gleraugum, er hætt við að gæti misskilist. Þar sem málið fór ekki til hv. atvinnuveganefndar milli 2. og 3. umr. tel ég rétt að hér sé a.m.k. gerð grein fyrir því hvaða skilning á að leggja í orðalag sem er að finna í í breytingartillögunni.

Í 1. tölulið breytingartillögunnar segir m.a., með leyfi forseta:

„Heimilt er að flytja allt að 15% af aflamarki kolmunna, makríls og norsk-íslenskrar síldar frá einu fiskveiðiári yfir á það næsta ef ekki er í gildi samningur með aðild Íslands milli strandríkja um hverja tegund, en annars gilda ákvæði viðkomandi samninga um flutningsheimild milli ára.“

Rétt er að árétta að það getur verið mismunandi, þegar Ísland gerir alþjóðasamning við aðrar þjóðir, hvaða hlutdeild Ísland hefur, sem heimild til tilfærslu milli ára. Minn skilningur er sá, samkvæmt þessu orðalagi, að það hafi ekki áhrif á rétt einstakra útgerða eða skipa samkvæmt 11. gr. laga um stjórn fiskveiða. Það kann því að vera mismunandi, ef Ísland semur við önnur ríki eða það er ekki tiltekið í samningi hver tilfærsluheimildin sem Ísland hefur er, hvort það eigi við um 11. gr. sem varðar einstakar útgerðir. Það er algengt í þessum samningum að þetta sé ekki sérstaklega tiltekið og það skapast einhver alþjóðleg samningsvenja um að miða við 10%, að 10% sé heimild Íslands til tilfærslu milli ára. Slíkt samningsákvæði, miðað við það sem meiri hluti atvinnuveganefndar er að leggja til, getur samkvæmt mínum skilningi ekki haft áhrif á það að einstakar útgerðir eða skip takmarkist við lægri tölu en kveðið er á um í þessari tillögu, sem er 15%. Enda sést, ef seinni hluti breytingartillögunnar er skoðaður þar sem kveðið er á um að ráðherra hafi að fenginni ráðgjöf frá Hafrannsóknastofnun heimild til að hækka hlutdeild, að þá er átt við rétt útgerðar samkvæmt 11. gr. Ef ástæða er til vegna veiðiráðgjafar frá Hafrannsóknastofnun að hækka heimildina í 20% þá gildir það fyrir hverja útgerð fyrir sig. Það hefur að sjálfsögðu ekki áhrif á samningsskuldbindingar íslenska ríkisins gagnvart öðrum þjóðum. Hafi verið samið um 10% þá gildir það áfram.

Þetta er mikilvægt, frú forseti, því að máli þessu til grundvallar eru gríðarlegir efnahagslegir hagsmunir Íslands, ekki eingöngu útgerðarinnar, að okkur takist og auðnist að gæta hagsmuna okkar og nýta þann rétt sem við öðlumst með veiðum í þessum deilistofnum.

Það er óþarfi að taka það fram eins og málið hefur þróast á undanförnum árum og áratugum að það er alveg ljóst að þau ríki sem við erum að semja við vilja gjarnan að möguleikar Íslands til þess að veiða úr þessum deilistofnum séu sem minnstir. Þessar þjóðir eru ekki að leggja það til að hagsmunir Íslands verði sem mestir og bestir. Þær eru einmitt að leggja það til að sveigjanleiki Íslands til að veiða úr þessum deilistofnum verði sem minnstur. Þannig er eðli þessara veiða úr deilistofnum og hvernig líffræðin og fiskifræðin er í því hvernig göngurnar eru og koma til Íslands, ef það eru stórir stofnar, en það getur árað mjög mismunandi í þessu. Óvissan er gríðarlega mikil.

Frú forseti. Þetta er sá skilningur sem ég legg í þá breytingartillögu sem er í nefndaráliti meiri hluta atvinnuveganefndar og ég skrifa upp á. Ég tel hann vera réttan enda held ég að það væri ekki tilefni til þess, úr því sem komið er, að fara að boða hér einhverja breytingartillögu á þessu orðalagi þó ónákvæmt sé.