Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 107. fundur,  10. maí 2023.

stjórn fiskveiða.

596. mál
[17:53]
Horfa

Sigurjón Þórðarson (Flf) (andsvar):

Frú forseti. Það sem mig langar að fá upplýsingar um hjá hv. þingmanni, sem hefur greinilega lagst yfir allar þessar prósentutölur fram og aftur, 15%, 10%, er: Finnst honum ekki skjóta skökku við, þegar veitt hefur verið umfram ráðgjöf síðasta eina og hálfa áratuginn — þá er ég ekki að tala um eitt og eitt tonn heldur 41% umfram ráðgjöfina — að það hafi engar aðrar afleiðingar en að fiskifræðingar meti stofninn stærri? Segir það ekki allt sem segja þarf um svona ráðgjöf? Síðan er auðvitað þessi aðferðafræði, að koma með einhverja ráðgjöf á grundvelli eggjatalningar sem nær frá Biskajaflóa milli Frakklands og Englands og síðan norður fyrir Bretlandseyjar, að það sé grundvöllur einhverrar veiðiráðgjafar upp á eitt tonn. Segir þetta ekki talsvert? Segir þetta okkur ekki að ráðgjöfin býður upp á miklu meiri sveigjanleika en menn eru að ræða hér? Og ef það á við um þennan stofn, á það ekki við um fleiri stofna? Ég er alveg sannfærður um að svo sé. Það væri áhugavert, áður en lengra er haldið í umræðunni um þetta mál, að fá hér skýra afstöðu hv. þingmanns um þetta atriði. En svona fyrir meðalgreindan mann, ég er ekki að tala um einhvern snilling, frú forseti, þá er alveg augljóst að þessi ráðgjöf er bara ekki að ganga upp. Það er hægt að gera betur.