Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 107. fundur,  10. maí 2023.

stjórn fiskveiða.

596. mál
[18:00]
Horfa

Teitur Björn Einarsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Já, ég get tekið undir með hv. þingmanni, ég er fylgjandi öllu því sem gott er og lagt er til í að bæta stjórn fiskveiða. Ég er á því að því meiri sem sveigjanleikinn er, því betra. Það á við um allar tegundir og fyrir alla útgerðaraðila. Það er mitt sjónarmið. Komi tillögur þess efnis og lagt til hvernig hægt er að bæta þær heimildir sem er að finna í 11. gr. þannig að allir njóti góðs af þá get ég verið með í slíkri umræðu. Aðalatriði þessa máls hér um tegundatilfærslu í deilistofnum eru þau sjónarmið sem eru undirliggjandi um mikilvægi þess að hafa þennan sveigjanleika til að draga úr kostnaði við sóknina, til að mæta óvissu sem getur verið uppi í ytri þáttum umhverfisins, lífríkisins, veðurfarslega eða hvað sem það er. Við höfum séð það í ráðgjöf að þessar tölur eru ekkert endilega meitlaðar í stein. Þær geta verið fljótandi. Áður fyrr voru þær hærri, allt upp í 30%. Svo hafa þær farið niður. Aðalatriðið er að við höfum að leiðarljósi mikilvægi þess að þessi sveigjanleiki sé til staðar. Í því felast gríðarlegir hagsmunir fyrir íslenska þjóð, að við gerum sem mest verðmæti úr sjávarauðlindinni. Þess vegna tek ég undir með hv. þingmanni að það sem við ættum að gera, að sjálfsögðu, frú forseti, er að reyna að efla og bæta alla fiskveiðiráðgjöf sem við byggjum veiðar okkar á. Með þeim hætti værum við að gera meira í því að reyna að hámarka virði fiskveiðiauðlindarinnar fyrir íslenska þjóð.