131. löggjafarþing — 107. fundur,  11. apr. 2005.

Ríkisútvarpið sf.

643. mál
[16:44]

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er þörf á að bæta margt í skipulagi og rekstri Ríkisútvarpsins en í þessu frumvarpi er ekki tekið á þeim þáttum. Þvert á móti er valdapólitísk yfirstjórn stjórnarmeirihlutans hverju sinni geirnegld með þessum lögum. Í annan stað er dregið úr gagnsæi í stjórnsýslu Ríkisútvarpsins. Í þriðja lagi eru réttindi starfsfólks skert með þessu frumvarpi.

Hæstv. ráðherra segir að öll rök séu til þess að breyta Ríkisútvarpinu í sameignarfélag. Um þetta eru einfaldlega deildar meiningar og ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvað valdi því að Sjálfstæðisflokkurinn með aðstoð Framsóknarflokksins vilji koma í veg fyrir að aðrar tillögur sem fram hafa komið á þinginu fari til umsagnar samhliða þessu frumvarpi eins og lagt hefur verið til.

Varðandi réttindi starfsmanna segir hæstv. ráðherra að þau verði tryggð með eðlilegum hætti. Hvað þýðir þetta nákvæmlega? Vissulega er það svo að samkvæmt lögum um aðilaskipti á að tryggja kjör starfsmanna og kjarasamninga en hins vegar kemur fram í þessu frumvarpi, og kom fram í ræðu hæstv. ráðherra, að svo verður ekki að öllu leyti. Ég vísa t.d. í lífeyrisréttindi. Starfsfólk í B-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins mun ekki eiga kost á svokallaðri eftirmannsreglu svo að dæmi sé tekið eins og það á rétt á samkvæmt núverandi fyrirkomulagi, einfaldlega vegna þess að það verður enginn eftirmaður til staðar í fyrirtæki sem hefur verið lagt niður. Þá fer það inn á svokallaða meðaltalsreglu sem getur þýtt skert réttindi, og ég spyr:

Hvað verður um nýráðna starfsmenn? Munu þeir eiga kost á að eiga aðild að Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins? Verður þeim tryggð aðild að Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins? Og hvað um önnur réttindi sem opinberir starfsmenn búa við en munu verða sviptir ef þessi lög ná fram að ganga? (Forseti hringir.) Eru ráðuneytið og ráðherra reiðubúin að ganga frá samningum (Forseti hringir.) við stéttarfélög starfsmanna áður en þetta frumvarp verður gert að lögum?