131. löggjafarþing — 107. fundur,  11. apr. 2005.

Ríkisútvarpið sf.

643. mál
[16:46]

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er engin nýlunda, og mætti kannski gerast oftar, að ríkisstofnunum sé breytt í fyrirtæki. Það hefur gerst áður og við höfum margar fyrirmyndir. Ég nefndi það m.a. í ræðu minni þegar Landsbankanum var breytt í hlutafélag og Pósti og síma var breytt yfir í Símann hf. þannig að við höfum fyrirmyndir og við vitum alveg að hverju við göngum þegar við erum að breyta ríkisstofnun yfir í annað félagaform. Meginstefnan er að sjálfsögðu sú að fara að lögum og gæta þess að réttindi starfsmanna Ríkisútvarpsins verði óskipt eftir breytingu. Það er að sjálfsögðu meginlínan og það ætlar sér enginn að fara að takmarka réttindi sem þegar eru áunnin af hálfu þeirra starfsmanna sem um ræðir. Og mér skilst að það séu um 80 manns innan Ríkisútvarpsins starfandi í B-deildinni og getur verið að þeim hafi eitthvað fækkað eftir að ég fékk þessar síðustu tölur, þannig að það sé skýrt.

Varðandi það atriði sem hv. þingmaður — sem er rétt að draga fram líka að er formaður BSRB — kom inn á áðan um hvort frumvarp Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs eigi að fara órætt til nefndar, það er náttúrlega umhugsunarefni þegar formenn þingflokka biðja um að málefni þeirra flokka fari einfaldlega órædd til nefnda. Ég hélt einmitt að Alþingi ætti að sjá til þess að mál fengju lýðræðislega umræðu, sérstaklega í mikilvægum málum eins og málefni Ríkisútvarpsins eru. Það sem kemur mér aftur á móti mjög á óvart, og sérstaklega ef við skoðum aðdraganda þess varðandi vinnubrögð fjölmiðlanefndar sem voru til fyrirmyndar, er að hv. þingmaður virðist búinn að gleyma samkomulaginu milli mín og stjórnarandstöðunnar varðandi 1. umr. á RÚV-frumvarpinu. Eins og við munum var RÚV-frumvarpið sett á dagskrá rétt fyrir páska. Stjórnarandstaðan kom að máli við mig og bað um að frumvarpinu sem við erum að ræða nú í dag yrði frestað fram yfir páska þannig að — hvað? Jú, þannig að við gætum rætt skýrslu fjölmiðlanefndarinnar samhliða Ríkisútvarpsfrumvarpinu. (Forseti hringir.) Þannig er það nú. Ég er að uppfylla samkomulag sem mér finnst hv. þingmaður vera að koma aftan að mér með.