131. löggjafarþing — 107. fundur,  11. apr. 2005.

Ríkisútvarpið sf.

643. mál
[20:49]

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svörin og vil taka undir að full ástæða er til þess að menn fari að fjárlögum og forstöðumenn ríkisstofnana eiga að fylgja þeim eftir og bera ábyrgð á því. Þó háttar nokkuð sérstaklega til með stóran hluta af halla Ríkisútvarpsins í gegnum tíðina vegna þess að það hefur beinlínis verið gert ráð fyrir því í fjárlögum aftur og aftur að stofnunin væri rekin með halla. Í frumvarpinu verður ekki betur séð en stofnunin hafi ekki úr meiru að spila. Þá sé ég ekki betur, ef koma á í veg fyrir viðvarandi hallarekstur áfram í sameignarfélaginu, en að skera þurfi niður þjónustuna sem verið er að veita almenningi í útvarpi og sjónvarpi. Það er kannski ástæða til að spyrja hv. þingmann hvernig hún sér þann niðurskurð helst fyrir sér.

Sömuleiðis vil ég spyrja hv. þingmann, vegna þess að hún taldi jákvætt, skildist mér á henni, að leggja niður útvarpsráð, hvort stjórnin sem á að vera yfir stofnuninni, sem er klárlega pólitískt skipuð, sé ekki bara útvarpsráð hið meira og öflugra, þ.e. pólitískt kjörið útvarpsráð með miklu víðtækari völd og áhrif innan stofnunarinnar en sá umsagnaraðili sem núverandi útvarpsráð er. Og hvort það sé ekki áhyggjuefni að við, hinir pólitísku fulltrúar á Alþingi, ætlum að fara að hlutast svo mikið til um rekstrarmálefni stofnunarinnar út frá frjálslyndissjónarmiðum og frjálsræði sem ég veit að hv. þingmaður er talsmaður fyrir.