131. löggjafarþing — 107. fundur,  11. apr. 2005.

Ríkisútvarpið sf.

643. mál
[21:29]

Jónína Bjartmarz (F) (andsvar):

Það er freistandi, herra forseti, að vísa í þetta ágæta þingmál Samfylkingarinnar, tillögu til þingsályktunar, varðandi röksemdina um breytingu á rekstrarformi. En á heildina litið, þegar skoðuð er sú gagnrýni sem Ríkisútvarpið og rekstur þess hefur setið undir undanfarin ár, finnst mér augljóst að með þessu nýja frumvarpi er gleggra en fyrr tekið á mismunandi hlutverki og skyldum þeirra sem koma að stjórn stofnunarinnar. Það er tekið nákvæmar á hlutverki Ríkisútvarpsins en áður hefur verið gert. Nánar er fjallað um stjórnskipulag Ríkisútvarpsins og stjórn þess í það heila, rétt þess til þátttöku í annarri starfsemi. Öll þau efnisatriði sem fyrir koma í þessu frumvarpi eru til þess fallin að styrkja rekstur Ríkisútvarpsins og styrkja stöðu Ríkisútvarpsins í hinu stóra samhengi, í samhengi við aðra íslenska fjölmiðla. (Forseti hringir.) Mér finnst það ekki þurfa að fara á milli mála.