131. löggjafarþing — 107. fundur,  11. apr. 2005.

Ríkisútvarpið sf.

643. mál
[23:07]

Halldór Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Það vakti athygli mína að hv. þm. Ögmundur Jónasson skyldi alveg andstætt því sem hann sjálfur veit veitast hér að almennum þingmönnum fyrir að hafa aukið lífeyrisréttindi sín með þeim breytingum sem urðu á lögum um eftirlaun alþingismanna. Hann veit ofurvel að með hinni nýju löggjöf var réttur maka alþingismanna skertur og hann veit líka að með hinum nýju lögum var það ákveðið að alþingismenn skyldu greiða 5% í lífeyrissjóð í staðinn fyrir 4% áður. Þetta veit hv. þingmaður vel.

Þegar hann horfir yfir salinn og á þá þingmenn sem hér eru er hann þess vegna að tala þvert um hug sér þegar hann talar á þessum nótum. Hitt er rétt að það urðu nokkrar leiðréttingar í sambandi við samræmingu hjá ráðherrum en á hinn bóginn var lífeyrisréttur maka ráðherra skertur. Þetta allt veit hv. þingmaður. Það var nauðsynlegt að samræma þessi lög því sem almennt gildir í landinu og því sem m.a. gildir um starfsfólk sem er í BSRB og hv. þingmaður semur fyrir. Mér þykir undarlegt ef hann gagnrýnir það að við skulum breyta lífeyrisrétti maka alþingismanna til samræmis við það sem er hjá starfsmönnum ríkisins almennt.