132. löggjafarþing — 107. fundur,  24. apr. 2006.

Sjóræningjaveiðar á Reykjaneshrygg.

[15:43]
Hlusta

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil bara hvetja hæstv. ráðherra og ríkisstjórnina áfram í þessu máli. Ég held að þetta sé mál sem við getum öll verið sammála um sem erum hér í þessum sal. Ég fagna því sem hæstv. sjávarútvegsráðherra nefndi, hvað hefur verið gert.

Virðulegi forseti. Ég hvet hann áfram og ríkisstjórnina alla og ég tel að því alþjóðasamstarfi sem við þingmenn erum í, hvort sem það er á vettvangi EFTA eða annarra stofnana, þá eigum við að tala fyrir þessum málstað við vinaþjóðir okkar. Því svo sannarlega er það ein af þeim leiðum sem við verðum að fara og kannski fara fyrst áður en farið er út í róttækari aðgerðir.

Hér er mikið hagsmunamál á ferðinni, virðulegi forseti. Ég fagna því að hæstv. sjávarútvegsráðherra hafði frumkvæði að þessu á sínum tíma og vil að endingu og enn og aftur hvetja hann til dáða í þessu máli.