132. löggjafarþing — 107. fundur,  24. apr. 2006.

Stofnun hlutafélags um flugleiðsöguþjónustu og flugvallarekstur Flugmálastjórnar Íslands.

708. mál
[21:32]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Aðeins til að fyrirbyggja allan misskilning þá er ég mjög hlynntur hlutafélagaforminu. Ég tel hlutafélagaformið afbragðs form á fyrirtækjarekstri þar sem það á við. Það auðveldar eigendaskipti, það auðveldar sölu og áður en hér urðu til hlutafélög í einhverjum mæli þá reyndist oft erfitt að selja fyrirtæki því það var annðhvort eða. Eftir að þau urðu að hlutafélögum var hægt að selja þau í pörtum og eignaskiptin gengu greiðlega fyrir sig.

Hlutafélagaformið er líka afbragðsgott form þegar hluthafar, eigendur fyrirtækja, þurfa að hafa eftirlit með sínum eignum, sjá til þess að fyrirtækið sé vel rekið, skili þeim arði og þeim markmiðum sem þeir hafa sett sér að ná. Í slíkum skilningi er hlutafélagsformið afbragðs form.

Þegar hins vegar um hitt er að ræða að hlutabréfið er eitt og undir afturendanum á einum hæstv. ráðherra, þegar ekki stendur til að selja hlutina þá virkjum við ekki þá kosti sem er að finna í þessu formi. Það er mergurinn málsins. Þetta segi ég af tilefni þeirra ástarjátninga sem við heyrðum í garð hlutafélaga frá hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni fyrir stundu.

Ég ætla að gera athugasemd við athugasemd sem fram kom frá hæstv. samgönguráðherra áðan í minn garð. Hann gagnrýndi að ég skyldi gera að umtalsefni greinargerð sem send var stéttarfélögum á sínum tíma til skoðunar og ráðherra síðan grundvallaði sitt val á þegar hann ákvað að fara hlutafélagsleiðina. Það sem ég vísaði þar til laut að réttindamálum starfsmanna þar sem litið var á það sem sérstakan ókost að fara þá leið að réttindi starfsmanna væru réttindi opinberra starfsmanna. Það væri ókostur að þeir byggju við réttindakerfi opinberra starfsmanna. Að sjálfsögðu vek ég athygli á slíku.

Síðan hitt varðandi útrás og útrásarmöguleika. Auðvitað er ég því fylgjandi að við færum út kvíarnar og íslensk fyrirtæki færa út kvíarnar eins og þau hafa verið að gera. Fyrirtækið Össur, önnur fyrirtæki sem hafa verið að hasla sér völl á erlendri grundu, auðvitað gleður það hjarta mitt eins og annarra á sama hátt og það hryggir mig þegar þau flytja starfsemi sína alfarið út úr landinu eins og við erum að verða vitni að með önnur fyrirtæki: Flögu, Marel o.s.frv.

En ég gleðst ekki yfir útrás á hvaða forsendum sem er. Og þegar íslensk fyrirtæki eru að sölsa undir sig eignir annarra þjóða, hugsanlega fátækra þjóða eins og gerðist t.d. í Búlgaríu þar sem íslenskir fjárfestar sölsuðu undir sig búlgarska símann, beittu þrýstingi í samvinnu við bandaríska sendiráðið og bandaríska fjárfesta til að þröngva og þrýsta á búlgarska þingið að einkavæða símann. Ég fylgdist mjög vel með þessu á sínum tíma. Ekki gladdist ég yfir þessu.

Ég held að það hefði komið svipur á Íslendinga ég tala nú ekki um fyrr á tíð þegar við vorum fátæk þjóð ef erlendur auðhringur hefði komið hingað til lands og haft í hótunum við íslensk stjórnvöld að ef þau ekki einkavæddu grunnstarfsemi af þessu tagi skyldum við finna fyrir því á öðrum sviðum. Hér er ég að vísa í hótanir bandaríska sendiherrans í Búlgaríu á sínum tíma þegar Íslendingar voru að reyna að ná eignarhaldi á búlgarska símanum. Þetta var mjög umdeilt mál á búlgarska þinginu. Hér heyrðum við lítið af slíkum deilum heldur glöddust menn einfaldlega yfir árangri okkar manna. Ég gerði það ekki. Ég gagnrýndi það og ég gagnrýni það þegar alþjóðafjármagnið, hvort sem það er íslenskt eða erlent eða hvaðan sem það kemur, er að þvinga sérstaklega fátækar þjóðir til að láta af eignum sínum. Og það er okkar sannfæring í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði að þegar kemur að grunnþjónustu samfélagsins og velferðarþjónustunni þá eigi hún að vera á vegum samfélagsins.

Ein leiðrétting beint til hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar um einkavæðinguna og kosti þess að fara þessa leið eða hlutafélagsvæðinguna varðandi flugvellina og flugumferðarstjórnina. Hann segir að ekki sé saman að jafna Ríkisútvarpinu annars vegar sem fái greiðslur úr hirslum almennings, úr skatthirslunum, og hins vegar flugvöllunum og flugumferðarstjórninni sem verði rekin fyrir sjálfsaflafé. Hér hefur komið fram að þetta sjálfsaflafé byggir í reynd ekki á neinni alvörusamkeppni. Það er íslenska ríkisstjórnin og ríkisvaldið sem kemur fram fyrir hönd Íslendinga — ekki hlutafélagsins sem slíks heldur okkar í samningum um flugumferðarstjórnina. Það er framkvæmdin sem er á vegum hlutafélagsins. Eins er það með flugvellina og rekstur þeirra því það mun aðeins vera reksturinn sem um er að ræða sem fer inn í hlutafélagið, hann hefur nánast sjálfdæmi um hvernig hann ber sig að við gjaldtökuna eða hvað? Það er ekki samkeppni fyrir að fara á því sviði. Þetta eru nauðugir viljugir viðskiptaaðilar. Við erum ekki þarna að tala um einhverja alvörusamkeppni þannig að þetta held ég að sé misskilningur hjá fulltrúa Samfylkingarinnar við þessa umræðu, hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni.

Þetta voru atriði sem ég vildi nefna við þessa umræðu jafnframt því sem ég legg áherslu á að að sjálfsögðu þurfum við að taka til umfjöllunar þær fjórar leiðir allar sem okkur er sagt í skýrslum og skjölum sem koma frá vinnunefndum hæstv. ráðherra að fullnægi þeim formlegu og lagalegu kröfum sem eru meginforsendur þess að ráðist er í þessa lagasmíð.