135. löggjafarþing — 107. fundur,  23. maí 2008.

vistunarmat.

[11:53]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég held að ég sé nú sá maður hér í þinginu sem hafi bent mönnum hvað oftast á að allir þingmenn greiddu atkvæði með heilbrigðislögunum. Eitt af því sem við erum að vinna að í framhaldi af því er t.d. sjúkratryggingafrumvarpið. Það hefur farið svolítill tími í það, virðulegi forseti, að minna suma á að þeir samþykktu þann lagabálk og jafnvel þarf að minna suma á að þeir samþykktu hann ekki aðeins heldur undirbjuggu líka þann lagabálk (Gripið fram í.) í síðustu ríkisstjórn. Ég er því afskaplega ánægður, virðulegi forseti, með að menn séu búnir að átta sig á því að þeir greiddu atkvæði með heilbrigðislögunum síðasta vor. Það ætti að auðvelda alla umræðu í þinginu mjög þegar kemur að umræðu um heilbrigðislög. (Gripið fram í.) Ég er mjög ánægður með ræðu hv. þingmanns að hún veki hér athygli á því sem ég hef reynt að gera.

Hins vegar liggur það alveg fyrir að við vinnum með öllum þeim sveitarfélögum sem hér voru nefnd að aukinni og bættri þjónustu. Ég held að það sé besta leiðin, þ.e. samvinna við sveitarfélögin, og ég vonast til þess að við getum náð góðri niðurstöðu um málið.