138. löggjafarþing — 107. fundur,  16. apr. 2010.

lögreglulög.

586. mál
[13:41]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég vil eins og aðrir þingmenn sem hafa blandað sér í umræðuna, þakka hæstv. dómsmálaráðherra fyrir yfirferð yfir þetta frumvarp og fyrir þann vilja sem kemur fram í máli ráðherrans til þess málið fái vandaða umfjöllun í allsherjarnefnd og loka ekki fyrir að það taki breytingum þar. En frumvarpið er fyrst og fremst niðurskurðarfrumvarp eins og tímarnir gefa til kynna og veita ástæðu til og hægt er að hafa á því sterkar skoðanir hvort þarna sé of í lagt að fækka embættum úr 15 í sex. Hv. þm. Einar K. Guðfinnsson fór vel yfir það með hvaða hætti það varðar landsbyggðina að missa yfirstjórn lögreglu frá sér, og vissulega heyrast áhyggjuraddir frá sveitarstjórnarmönnum víða um land varðandi þessi mál.

Það eru önnur atriði sem ég vil tæpa á í ræðu minni, ég mun hugsanlega koma aftur í aðra ræðu til að fara yfir sjónarmið landsbyggðarinnar, og það eru í fyrsta lagi þessar hugmyndir um hagræðingu, þ.e. sú hagræðing sem á að fylgja í kjölfar breytinganna. Auðvitað vill maður það og öllum þingmönnum ber skylda til þess að fara vel með fjármuni ríkisins og stuðla að því, og þá þarf maður að vera algjörlega sannfærður um að þær breytingar sem verið er að ráðast í komi til með að skila hagræðingu. Í umræðu um þetta mál á fyrra þingi eða á síðasta ári um svipað mál, var ljóst að ekki var búið að fara í neina útreikninga á því hverju þetta mundi skila í hagræðingu. Ég sé hér að farið verður í það verkefni af hálfu undirbúningsnefndar eða verkefnisstjórnar en spurningin er hversu mikilli hagræðingu ætlast er til að náð verði með þessu. Eina vísbendingin um það er í umsögn frá fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins, að heildarsparnaður geti verið á bilinu 330–450 millj. kr. á ári og það fari allt eftir því hvað starfsmönnum verður fækkað mikið. Af þessu hef ég ákveðnar áhyggjur vegna þess að ég tel rétta þá stefnu sem kemur fram í frumvarpinu að vissulega sé rétt að reyna að taka á því að fækka yfirmönnum en stuðla þá jafnframt að því að fleiri almennir lögreglumenn sinni störfum.

Þetta hefur hins vegar þá fylgikvilla að möguleiki á framgangi lögreglumanna í starfi verður minni og ég veit að lögreglumenn hafa miklar áhyggjur af þessu atriði sem fylgir frumvarpinu. Því væri áhugavert að fá það fram hjá hæstv. ráðherra hvort búið sé að fara yfir þetta í ráðuneytinu og hvort meiningin sé að mæta lögreglumönnum að einhverju leyti með þá t.d. einhverjum hækkunum á launum.

Jafnframt kemur fram, eins og ég kom örstutt inn á í andsvari áðan, að fjármálaráðuneytið gerir ráð fyrir að lögreglumönnum sem og öðru starfsfólki löggæsluembætta fækki í heildina á næstu árum með því að nánast engar nýráðningar komi á móti fækkun vegna þeirra starfsmanna sem fara á eftirlaun eða hverfa til annarra starfa. Þetta er í rauninni það atriði í öllu þessu máli sem ég hef mestar áhyggjur af, af því að við búum við þær aðstæður að við eigum að leita allra leiða til að fjölga lögreglumönnum. Það er einfaldlega það sem þarf að gera og talað hefur verið um það í mörg ár og stigin hafa verið ákveðin skref í þá átt. En ef þetta kemur til með að hafa þær afleiðingar að lögreglumönnum fækki enn frekar frá því sem nú er, fer ég að haga áhyggjur af öryggisstigi í landinu og því hvernig lögreglan eigi að sinna starfsskyldum sínum og ná að framkvæma og framfylgja öllum þeim fjölmörgu verkefnum sem lögreglunni eru falin samkvæmt lögum. Þetta eru atriði sem ber að hafa áhyggjur af. En ef það er rétt að ekki standi til að þetta fylgi í kjölfarið, er að sjálfsögðu ljóst að heildarsparnaðurinn verður ekki jafnmikill og fjármálaráðuneytið leggur upp með hér.

Ég minni á utandagskrárumræðu sem fór fram fyrr í mánuðinum varðandi öryggisstig og þjónustustig innan lögreglunnar. Mjög mikilvægt er að við áttum okkur á því hvaða þjónustustigi við ætlum að viðhalda í landinu og hvaða öryggisstigi við ætlum að miða við að lögreglan sinni. Það er mjög mikilvægt að þetta sé skýrt af hálfu stjórnvalda, að þau hafi skýra stefnu í þessum málum svo þeir sem vinna hjá ríkinu og þurfa á þjónustu lögreglunnar að halda átti sig á hver stefna stjórnvalda er í þessu máli.

Að öðru leyti hef ég ákveðnar efasemdir um þá stefnu sem birtist í frumvarpinu varðandi embætti ríkislögreglustjóra en á bls. 8 í greinargerð segir, með leyfi forseta:

„Gert er ráð fyrir að verkefnisstjórn um útfærslu breytinganna geri tillögur um færslur á verkefnum og fjárheimildum, en embætti ríkislögreglustjóra hafi eftirlit með því að viðkomandi embætti uppfylli þær kröfur sem gerðar verða til rækslu verkefnanna. Á meðal þeirra verkefna sem þarna koma til skoðunar er rekstur sérsveitar, símsvörun og rekstur fjarskiptamiðstöðvar, flutningur brottvísaðra útlendinga úr landi o.fl. Heimildin tengist þannig þeirri áherslubreytingu sem boðuð er á embætti ríkislögreglustjóra …“

Ég átta mig ekki alveg á því í hverju þessi áherslubreyting á embætti ríkislögreglustjóra felst en mér virðist, miðað við lesturinn, að verið sé að taka af því embætti öll svokölluð „operativ“ verkefni og að ríkislögreglustjóra sé ætlað að vera einhvers konar stjórnsýslustofnun með frekar takmörkuð verkefni. Ég óska eftir því ef hæstv. dómsmálaráðherra kemur hér aftur að hún fari aðeins betur yfir þessar breytingar og rökstuðninginn fyrir þessum breytingum á embætti ríkislögreglustjóra.

Nú er það svo að embættið hefur staðið sig með miklum ágætum og sinnir gríðarlega mikilvægu hlutverki. Það sem er mest áberandi þessa dagana er að sjálfsögðu það hlutverk sem ríkislögreglustjóri gegnir varðandi almannavarnir. Það er ákaflega mikilvægt fyrir lögreglustjórana úti á landi að hafa öflugan ríkislögreglustjóra sér til stuðning og fulltingis þegar óvæntir atburðir koma upp. Ég tel að það sé gríðarlega mikilvægt að við eigum þennan auð áfram sem felst í þessari stofnun. Við búum í landi þar sem náttúruhamfarir eru orðnar daglegt brauð ef svo má segja, og það getur vel farið svo að upp komi fleiri en eitt tilvik í einu. Þá er mjög mikilvægt að lögreglustjórar úti á landi geti leitað til einhvers aðila bæði til halds og trausts og ekki síður þar sem sérhæfingin er til staðar.

Ég hef einnig áhyggjur af þeirri sýn ríkisstjórnarinnar sem birtist í þessu frumvarpi um hvernig úthluta á þeim verkefnum sem færa á frá ríkislögreglustjóra. Dómsmálaráðherra er veitt sú heimild að úthluta þessum verkefnum. Ég hef áður í þessum ræðustól hrósað núverandi dómsmálaráðherra og þetta snýst ekkert um persónu dómsmálaráðherrans sem gegnir því embætti, en það er hins vegar óheppilegt að vald af þessu tagi sé falið einum ráðherra. Pólitísk afskipti ráðherra af daglegri stjórn lögreglunnar og ákveðnum verkefnum sem þar er sinnt mega ekki vera til staðar. Ég tel að þarna séum við að opna á það að einhver möguleiki sé á að slíkt geti átt sér stað. Það er gríðarlega óheppilegt. Það er ekki samfélag sem ég vil búa í og það er ekki samfélag sem ég tel að við eigum að byggja upp á Íslandi.

Það er gríðarlega mikilvægt að ráðherra sé með sem kallað var hér þegar talað var um Bankasýslu ríkisins „armslengd“ frá lögreglunni. Ég tel að ríkislögreglustjóraembættið sé gríðarlega mikilvægt í þeim tilgangi. Ef úthluta á þessum verkefnum eitthvert annað en þar sem þau eru stödd í dag, tel ég mjög mikilvægt að það sé annaðhvort gert beint af Alþingi og sú ákvörðun tekin hér, þetta er pólitísk ákvörðun, eða einfaldlega að ríkislögreglustjóri í samvinnu við aðra lögreglustjóra taki ákvörðun um hvernig heppilegast sé að skipta verkefnunum og þá sé ekki eingöngu um það að ræða að færa og flytja verkefni frá ríkislögreglustjóra, heldur einnig að flytja verkefni innan kerfisins alls. Það gætu því verið mismunandi áherslur á milli embætta lögreglustjóra sem eru víðs vegar um landið, ekki bara hvað varðar stóru verkefnin sem eru nú hjá ríkislögreglustjóra, heldur önnur verkefni lögreglu. Ég tel þetta vera heppilegri leið.

Síðan er rétt að velta því fyrir sér í þeirri miklu umræðu sem fram hefur farið bæði í fjölmiðlum og annars staðar um þetta ágæta embætti ríkislögreglustjóra, hvað embættið hefur verið að gera og hverju það hefur staðið fyrir. Ég hef talað hér um almannavarnirnar og ég hef jafnframt minnst á sektarinnheimtuna. Ríkislögreglustjóri tók það verkefni að sér og vistaði það hjá sér en færði það síðan út á land þegar búið var að ná því í ágætishorf. Það er nú þegar reynsla af því að verklagið sem ég var að lýsa að væri heppilegra í þessu tilviki gengur einfaldlega vel upp. Og af því að ég talaði um það fyrr í dag í andsvörum mínum við hæstv. ráðherra að það sé mikilvægt að læra af reynslunni, tel ég mjög mikilvægt að farið verði vel yfir það í allsherjarnefnd hvort sé ekki heppilegra að fara þessa leið.

Sérsveitin, sem jafnframt er vistuð hjá ríkislögreglustjóra, gegnir gríðarlega mikilvægu hlutverki og það er mikilvægt fyrir lögreglustjóra víða um land að eiga aðgang að henni þegar koma upp óvænt tilvik, t.d. eins og náttúruvá. Það gengur ekki að sérsveitin sé þá bundin í einhverjum daglegum verkefnum, t.d. að ganga vaktir hjá einhverju stóru embættanna sunnan heiða í forföllum annarra lögreglumanna, ef einhverjar hugmyndir eru um það sem maður hefur heyrt fleygt. Ég tel að ríkislögreglustjóri gæti útvistað fleiri verkefnum frá sér, t.d. varðandi bílaflotann, ég tel ekkert útséð með það að hægt sé að ná fram breytingu innan þess fyrirkomulags sem nú þegar er við lýði og hefur gefist vel.

Fjarskiptamiðstöð ríkislögreglustjóra gegnir jafnframt gríðarlega mikilvægu hlutverki. Ég tel vandséð að ástæða sé til að hrófla mikið við því fyrirkomulagi sem hefur gengið vel upp.

Frú forseti. Í þriðja lagi minntist ég á það í andsvari mínu að mikilvægt sé að gera úttekt á því hvernig þær breytingar sem nú þegar hafa verið gerðar á stóru lögregluembættunum hafa komið út og að óháður aðili geri þá úttekt. Í fyrsta lagi yrði skoðað hvernig breytingarnar hafa komið út hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu og með tilliti til þess hvort löggæslan hafi eflst, hvort fjármunir nýtist betur en áður, hvernig þróunin hefur verið varðandi yfirmenn. Hefur þeim fækkað eða hefur þeim fjölgað? Athugað verði hvort lögreglumönnum á götunni, eins og oft er kallað, hafi fjölgað og hvort embættið sé hagkvæm rekstrareining. Þá væri hægt að líta til embættisins á Suðurnesjum jafnframt í sömu úttekt til að fá einhvern samanburð á því hvort þetta hafi verið gert með samsvarandi aðferðum, sem ég tel reyndar ekki vera, og fá samanburð á því hvernig best er að fara í svona stórar breytingar. Það er oft verra að fara í breytingar breytinganna vegna, enda hefur ríkisendurskoðandi sagt það í áliti sínu að breytingar sem eiga að miða að hagræðingu heppnist í 15% tilvika. Því er stundum betra að hugsa hlutina mjög vel áður en menn fara af stað og full ástæða til að hvetja allsherjarnefnd til að nýta tímann vel í vinnu sinni fram undan.

Í ákvæði til bráðabirgða kemur fram að við gildistöku laga þessara skipi ráðherra verkefnisstjórn sem leggja skuli mat á hagkvæmni og gera tillögu um hvaða verkefni, eins og mér hefur verið tíðrætt um hér, væri rétt að fela einstökum lögreglustjórum á grundvelli 5. mgr. 6. gr. lögreglulaga. Mér þætti líka áhugavert að heyra sýn ráðherrans á það hvernig þessi verkefnisstjórn verður skipuð. Er hér um að ræða verkefnisstjórn sem skipuð er af aðilum úr ráðuneytinu, verkefnisstjórn sem skipuð er af hálfu lögreglustjóra, af hálfu Landssambands lögreglumanna eða prófessorum eða hverjir eiga að skipa þessa verkefnisstjórn? Eru það rekstrarfræðingar? Hverjir eru eiga að fara með þetta mikla vald? Það væri gott að fá einhverja sýn frá ráðherranum á það.

Frú forseti. Auðvitað væri rétt að ræða aðeins seinna frumvarpið sem hér liggur jafnframt fyrir sem varðar sýslumennina og ræða á í sömu umræðu. Þetta tengist landsbyggðarumræðunni og þeirri framtíðarsýn sem ríkisstjórnin hefur fyrir landsbyggðina. Ég tel gríðarlega mikilvægt að áður en farið verður í þessar breytingar á lögregluumdæmunum, hvort sem þær líta svona út eða hvort fleiri umdæmi verða þá komin í lögin, liggi jafnframt fyrir hvaða breytingar á að fara í varðandi sýslumannsembættin. Ég tel mikilvægt að ekki verði legið á neinum upplýsingum varðandi þau og að mótuð sé heildarframtíðarsýn um það hvernig þessir hlutir eiga að vera. Aðeins þannig getum við rætt málin af einhverri skynsemi við t.d. sveitarstjórnarmenn sem bíða eftir að fá að heyra hver stefnan á að vera í þessum málaflokki. Ég tel gríðarlega mikilvægt að hér sé ekki eingöngu lagt fram frumvarp um það að hætti sýslumaður störfum af einhverjum sökum, sé frestað að ráða í það starf og öðrum sýslumanni falið að gegna því embætti, heldur sé lögð fram einhver sýn um það hvað á að verða. Það er spurningin sem brennur á hinum fjölmörgu hagsmunaaðilum, sveitarstjórnarmönnum og íbúum út um hinar dreifðu byggðir sem horfa nú fram á það að missa störf, að missa t.d. einn af fáum háskólamenntuðum íbúum og starfsmönnum sem starfandi eru í sveitarfélaginu. (Forseti hringir.) Það er gríðarlega mikilvægt svar við þessari spurningu.