140. löggjafarþing — 107. fundur,  25. maí 2012.

heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði.

718. mál
[11:38]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Björn Valur Gíslason) (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið og þá föðurlegu umhyggju sem hann virðist hafa fyrir heilsu minni og heyrn, sem er notalegt að vita af og ég mun íhuga það frekar.

Ég ítreka það sem ég sagði áðan, ég hef ekki skipt um skoðun frá því 2010 þegar við unnum þetta mál í samgöngunefnd. Reyndar var hv. þingmaður ekki á því nefndaráliti ef ég man rétt, hann var fjarverandi. Ég hef ekki skipt um skoðun í því máli. Ég er algjörlega þeirrar skoðunar að ekki mun falla á ríkið nein ábyrgð vegna lántöku vegna þessa verkefnis. Ég er algjörlega sannfærður um að það lán verði greitt. Það eru allir möguleikar á því í frumvarpinu, sem við í meiri hluta fjárlaganefndar leggjum til að verði samþykkt, á því að haga málum þannig að á endanum verði það greitt ef ekki kemur til þess samkvæmt þeim markmiðum sem felast í frumvarpinu. (Forseti hringir.) Það er hægt að lengja í lánum, það er hægt að endurfjármagna og hægt að grípa til ýmissa ráða til að svo verði. (Forseti hringir.) Á þeim forsendum er ég nákvæmlega sömu skoðunar og ég var í samgöngunefnd árið 2010 og sé ekki að (Forseti hringir.) neitt hafi breyst hvað það varðar.

(Forseti (SIJ): Forseti vill minna á að ræðutími er aðeins ein mínúta þegar svo margir hafa óskað eftir að veita andsvar.)