145. löggjafarþing — 107. fundur,  3. maí 2016.

fjármálastefna 2017--2021.

741. mál
[15:01]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra. Ég var minnt á að það eru reyndar aðeins tvær vikur sem við höfum en ekki fjórar því að tíminn sem fjármálaráð hefur héðan í frá var styttur í meðförum þingsins. Þetta er ekki langur tími og við verðum að hafa hraðar hendur. Ég held að það standi á ríkisstjórnarflokkunum að klára það mál. Ég held að minni hlutinn hafi tilnefnt fulltrúa sinn.

Varðandi skattamálin erum við ekki sammála þar. Ég tel að einmitt virðisaukaskatturinn og fleira hafi orðið til þess að íþyngja þeim sem lægstar tekjurnar hafa.

Það kemur fram hér um eldri borgara og öryrkja að gert sé ráð fyrir því að þeir geti framfleytt sér sjálfir með tekjum sínum og þurfi ekki á lífeyrisgreiðslum að halda, það sé markmiðið. Mig langar því að spyrja hvernig ráðherrann sér það fyrir sér að sérstaklega öryrkjar, en auðvitað líka eldri borgarar, geti framfleytt sér sjálfir með tekjum sínum og þurfi ekki á (Forseti hringir.) lífeyrisgreiðslum almannatrygginga að halda. Hvernig sér hann þetta fyrir sér í praxís?