145. löggjafarþing — 107. fundur,  3. maí 2016.

ný skógræktarstofnun.

672. mál
[20:09]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Sigrún Magnúsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Það er sérstaklega ánægjulegt að koma upp eftir þessar þrungnu ræður stórhöfðingja hér á Alþingi. Mig langar til þess að grípa boltann þar sem síðasti ræðumaður hætti og segja að það sem er sameiginlegt með skógræktinni og Framsóknarflokknum er að hér áður fyrr var talað um að það þyrfti 100 ár til þess að búa til góðan skóg, og Framsóknarflokkurinn verður eflaust algjörlega á toppnum vona ég — í desember (Gripið fram í.) á 100 ára afmælinu. Þá get ég upplýst hv. þm. Össur Skarphéðinsson sem grípur hér fram í að ég var að koma frá því að halda fyrirlestur um Örfirisey, sögu hennar og hvað hún er þrungin af sögu. Þar gerðu menn einmitt út, þannig að við framsóknarmenn hugum líka mjög vel að sjómennskunni og að mölinni. Ég veit ekki betur en að ég hafi staðið hér í áratugi í borginni einmitt til þess að verja það sem Jónas frá Hriflu barðist fyrir.

Mig langar til að þakka enn og aftur fyrir þessa prýðilegu umræðu og segja að mér finnst hafa verið mjög vel að verki staðið hjá hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni að hafa flutt höfuðstöðvarnar austur. Ég gerði það að algjöru skilyrði þegar ég og við í ráðuneytinu vorum að ráða nýjan skógræktarstjóra að búsetan yrði að vera bundin þar þannig að við hv. þingmaður höfum sameiginlegt sjónarmið þar.

Það hefur tekist að rækta skóga og það þarf sem sagt ekki alveg 100 árin til þess að koma í ljós, því að þegar ferðast er núna um Austfirði sér það hver maður og þarf ekki að vera neinn sérfræðingur til að sjá hverju Héraðsskógaverkefni hefur komið til leiðar. Sá árangur blasir þar við hvert sem litið er. Ég kom þar síðastliðið sumar og þá fór reyndar svolítið um mig, en í hverri stétt eru notuð ákveðin orð, þegar menn vildu endilega sýna mér bilun eða bilunina. Ég vissi ekki af hverju þyrfti að sýna mér slíka hluti, en það er orðið sem menn nota um fyrstu grisjun, það er að bila. En svona lærir maður smám saman.

Ég held að orðið sem féll hjá hv. þm. Þorsteini Sæmundssyni hafi verið rétta orðið, það er slagkraftur. Það er það sem við þurfum að setja aftur í gang, slagkraft í skógrækt. Ég bið hv. þm. Össur Skarphéðinsson aðeins að hlusta vegna þess að ég ætla að taka undir með honum um Vestfirði, og ég er einmitt að læra af Vestfirðingum. Ég ætla að lána honum ágæta grein sem er um skógrækt bænda í hans kæra Dýrafirði og Önundarfirði, og hvernig þeir hófust handa þar. Ég er að læra af því en þeir töluðu m.a. um búskaparskógrækt. Það orð hefur ekki verið þjált, en það var sett fram af Vestfirðingum. Það finnst mér dálítið spennandi verkefni að vinna að, að við vinnum núna að búskaparskógrækt. Skógrækt er ákveðin tegund búskapar, en búskaparskógrækt þýðir líka annað, hefur tvöfalda merkingu eins og það sem skáldið sagði, að menn stundi annan búskap samhliða.

Þá get ég sagt ykkur frá því að Landssamtök sauðfjárbænda eru mjög áhugasöm um að vera í samvinnu og það var bara í síðustu viku sem stjórn þeirra mætti á fund í ráðuneytinu til að velta vöngum um hvernig við gætum sameiginlega unnið að því verkefni að skógrækt væri líka stunduð á sauðfjárjörðum. Þetta segir mér að fólk er farið að hugsa allt öðruvísi hvað varðar skógrækt. Ég hef því mikla trú á að okkur takist þetta, að við getum treyst búsetu í byggðum landsins, hvort sem við köllum þær gisnar byggðir eða annað, en tek jafnframt undir þau varnaðarorð að vitaskuld verðum við að huga að skipulagi. Ég er ein af þeim sem gerðu ekki nógu mikið af því og gróðursetti sjálf fyrir ágætisútsýni, en af öllu lærum við. — En enn og aftur vil ég þakka innilega fyrir þessa ágætu umræðu.